148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

staða einkarekinna fjölmiðla.

[12:04]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Umhverfi fjölmiðla hefur breyst mjög mikið í gegnum tíðina almennt, sér í lagi á síðustu árum. Víðs vegar úti um allan heim eru fjölmiðlar að fikra sig áfram með ný viðskiptamódel vegna tilkomu internetsins. Enda er rík þörf fyrir vegna þess að hefðbundnu módelin eru hætt að virka. Það er mikið kvartað undan því að fólk sé hreinlega hætt að borga fyrir fréttir. Það ætlast til þess að fréttirnar séu ókeypis. Sú þróun á sér stað hérna líka. Það þarf eitthvað nýtt, annað en gamla módelið þegar maður seldi einstök eintök. Þetta er sama trend og í mörgum öðrum iðnaði líka.

Vandi Íslendinga og Íslands við að taka þátt í þeirri þróun er smæð markaðar íslensku tungunnar. Það setur okkur í þann kjánalega vanda að til þess að taka þátt í þessari þróun þurfum við í raun og veru að búa til efni á máli sem fleiri en Íslendingar skilja, svo sem ensku eða einhverju álíka tungumáli sem er talað af ógrynni fólks.

En við viljum væntanlega að íslensk tunga lifi af. Ég geri fastlega ráð fyrir því. Ég er vissulega þeirrar skoðunar sjálfur. En ef íslenska tungan á að lifa af 21. öldina og þá framþróun sem henni fylgir verðum við að styrkja íslenska tungu með ríkisstyrk, með peningum úr ríkissjóði, með skattheimtu. Það er engin önnur leið í kringum það að mér vitandi. Ég væri á móti slíkri nálgun ef við byggjum í tugmilljóna manna samfélagi. En við gerum það ekki.

Hvað varðar tillögurnar sem koma fram í umræddri skýrslu þá hef ég kannski ekki tíma til að fara yfir þær allar hérna en kem að þeim í seinni umferð. En hvað varðar tillögu A í það minnsta, um endurgreiðslu á hluta kostnaðar við framleiðslu á fréttum og fréttatengdu efni, tel ég það mikilvægt, samanber það sem ég var að segja áðan. Við verðum að styðja við bakið á þessum fjölmiðlum ef við ætlum að halda í íslenska tungu. Fyrir mér er það í sjálfu sér aðalatriðið í þessari umræðu.