148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

norrænt samstarf 2017.

92. mál
[12:34]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt nú skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2017. Skýrslan liggur nú á vef Alþingis. Þar farið mjög ítarlega yfir þá fundi og helstu verkefni og umræður sem voru á árinu, liðnu ári, þannig að þeir sem áhuga hafa geta fengið ítarlegri upplýsingar þar.

Mig langar til að fara í stuttu máli yfir helstu verkefni og umræður innan Norðurlandaráðs á árinu 2017. Þar ber helst að geta að tillaga Finna og Íslendinga um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði og umsókn Færeyinga um fulla aðild að ráðinu voru meðal þeirra mála sem voru efst á baugi í Norðurlandaráði á árinu 2017. Finnar fóru með formennsku í ráðinu og Britt Lundberg, þingmaður Miðflokks Álandseyja (Åländsk Center), gegndi embætti forseta.

Á vorþingfundi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi var m.a. fjallað um breytingar á samstarfi Norðurlanda og Bandaríkjanna eftir að Donald Trump tók við forsetaembættinu. Var þar m.a. rætt um að enn mikilvægara væri en áður að Norðurlönd legðu áherslu á sameiginleg gildi sín í samskiptum við Bandaríkin.

Á Norðurlandaráðsþingi, sem haldið var í Helsinki í lok október og byrjun nóvember, fór fram umræða um sáttamiðlun á alþjóðavettvangi. Þar var flutt ávarp og sat fyrir svörum Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og handhafi friðarverðlauna Nóbels. Hann sagði m.a. að þegar deilur kæmu upp á alþjóðavettvangi mætti nánast alltaf rekja rætur þeirra til þess að einhverjir hópar upplifðu ójöfnuð. Ahtisaari sagði jafnframt að samfélagsgerð Norðurlanda, sem byggðist á réttlæti og jöfnuði, væri sú besta sem stæði til boða og gæti verið öðrum þjóðum fyrirmynd.

Sameiginleg tillaga Íslendinga og Finna um að gera finnsku og íslensku að vinnutungumálum í Norðurlandaráði til jafns við skandinavísku málin var ítrekað rædd á vettvangi Norðurlandaráðs, en hún var upphaflega lögð fram 2016. Finnskir og íslenskir þingmenn í Norðurlandaráði sögðu það réttlætismál að jafna stöðu tungumálanna en skandinavískir þingmenn höfðu áhyggjur af auknum kostnaði við túlkun og þýðingar og að hugsanlega yrði að auka kröfur um tungumálakunnáttu starfsmanna Norðurlandaráðs og þá yrði erfiðara að finna hæfa starfsmenn. Þeir lýstu einnig áhyggjum af fordæmisgildi breytingarinnar og að í kjölfarið mundu t.d. Samar og Grænlendingar setja fram sams konar kröfur. Málinu lauk ekki á árinu heldur var ákveðið að fara nánar yfir hvaða áhrif breytingarnar hefðu á starfsemi Norðurlandaráðs og taka það fyrir á ný á Norðurlandaráðsþingi 2018.

Af þessu tilefni langar mig til að upplýsa þingheim um að Íslandsdeild Norðurlandaráðs kom seint í gærkvöldi af fundi sem haldinn var í Stokkhólmi. Þar var þetta mál tekið fyrir í nefndum Norðurlandaráðs. Eftir þá umræðu var ákveðið að setja af stað vinnuhóp sem mundi skoða þetta mál nánar, þ.e. að taka saman upplýsingar um kostnað og jafnframt skoða aðrar leiðir til þess að bæta þjónustuna við Íslendinga og Finna, en að gera það á eins hagkvæman hátt og hægt er. Meðal annars voru nefndar hugmyndir eins og að skoða hvort hægt væri að nýta fjartúlkun. Í því sambandi var einnig nefnd breyting á skipulagi funda til að samnýta túlka betur og annað. Það er því til skoðunar. Við í Íslandsdeild Norðurlandaráðs fylgjum málinu að sjálfsögðu vel eftir og vinnum það í samstarfi við Finna.

Annað mál sem rætt hefur verið síðan 2016 er umsókn Færeyinga um fulla aðild að Norðurlandaráði. Á vorþinginu 2017 var til umræðu minnisblað sem danska þingið hafði tekið saman um lagaleg álitaefni tengd því máli. Þar var bent á ýmis vandkvæði tengd ákvæðum í stjórnarskrá Danmerkur og einkum þó í Helsinki-sáttmálanum, sem er grundvallarsamningur norræns samstarf. Fram hefur komið að samstarfsráðherrar Norðurlanda eru ekki tilbúnir til að breyta sáttmálanum. Á vorþinginu og einnig síðar lýstu ýmsir íslenskir þingmenn stuðningi við óskir Færeyinga. Um tíma leit út fyrir að umsókn Færeyinga yrði felld en svo fór á tilfinningaþrungnu Norðurlandaráðsþingi, leyfi ég mér að segja, í Helsinki síðastliðið haust, að samþykkt var að fresta málinu til þess að færeyskum yfirvöldum gæfist tækifæri til að kanna og gefa álit sitt á ríkisréttarlegum, þjóðréttarlegum og pólitískum álitaefnum.

Það er skemmtilegt að segja frá því að á sama þingi í Helsinki var Martti Ahtisaari sérstakur gestur og hafði fjallað um sáttamiðlun og hlutverk norrænna ríkja. Síðar á þinginu þennan sama dag kom umræðan upp varðandi Færeyinga og ætlaði ákveðinn hópur á þinginu ekki að leyfa Færeyingum að njóta vafans. En í ljósi þess að stóran hluta dagsins hafði sáttamiðlun verið til umræðu hefði það verið ákveðin hræsni að taka ekki undir sanngirniskröfu Færeyinga um að skoða málið betur og leyfa þeim að leggja fram frekari upplýsingar til þess að taka þá ákvörðun síðar á árinu 2018.

Þannig er staðan.

Þetta er yfirgripsmikil og ágæt skýrsla. Hér er farið yfir nákvæmlega helstu umfjöllunarefni. Hér er fjallað um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, störf í nefndunum, hvað nefndirnar hafa verið að gera sérstaklega, hverjir eiga sæti í Íslandsdeildinni nú og á síðasta ári. Þeir sem áhuga hafa geta kynnt sér þessa ágætu skýrslu. Ég þakka fyrir gott hljóð.