150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

eignasöfnun og erfðafjárskattur.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í fyrsta lagi held ég að það væri mjög áhugavert að taka saman heildstætt hver þróun eignaójöfnuðar eða eignajöfnuðar er á Íslandi. Við sáum til að mynda tölur í síðustu viku frá Hagstofunni sem benda til þess að eigið fé, sérstaklega ungs fólks, sé að aukast á Íslandi sem er ánægjulegt meðan eigið fé efstu tekjutíundarinnar, þó að það sé auðvitað hátt hlutfall, hefur í raun staðið í stað sem hlutfall frá hruni. Fyrir hrun var það hins vegar mjög hátt. Ég held að það sé áhugavert að taka þessi mál saman með heildstæðum hætti líkt og ríkisstjórnin hefur gert í öðrum málum. Ég minni á gagnagrunninn um tekjusöguna þar sem hægt er að lesa sér til um þróun ráðstöfunartekna á Íslandi og ég held að það sé mikilvægt að við gerum hið sama með eignastöðuna.

Hv. þingmaður spyr um frumvarp sem verið hefur í samráðsgátt frá hæstv. fjármálaráðherra. Það frumvarp hefur ekki komið inn á ríkisstjórnarborðið og væntanlega er það í samráðsgátt til að kalla eftir athugasemdum á borð við þær sem hv. þingmaður kemur hér með. Mér finnst alls ekki útilokað að erfðafjárskattur sé þrepaskiptur en hins vegar mun útfærslan skipta þar öllu, eins og hv. þingmaður sagði, þannig að ég held að rétt sé að bíða eftir því hvernig útfærslan verður eftir samráðsferli og eftir samtal við ríkisstjórnarborðið þar sem þetta mál er enn ekki komið á það stig.