150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna.

[15:14]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Því er fljótsvarað að Tyrkir geta ekki dregið okkur Íslendinga í stríð. Svo að það sé alveg skýrt fara þeir fram með slíkum hætti sem engin NATO-þjóð hefur stutt, ekki nokkur einasta. Öll skilaboð sem koma frá aðildarþjóðum NATO hafa verið á einn og sama veg. Við Íslendingar höfum verið með sambærileg skilaboð, ekki bara í málflutningi okkar heldur með beinum orðsendingum til stjórnvalda í Tyrklandi. Það er ekki um annað að ræða. Það sem skiptir máli á þessu stigi er að við og aðrar þjóðir gerum hvað við getum til að lágmarka þann skaða sem orðið hefur. Því miður, ef fer fram sem horfir, er ekki hægt að fullyrða að þetta sé búið. Skaðinn getur orðið miklu meiri en hann (Forseti hringir.) er í dag. Við þurfum að taka mið af því í okkar aðgerðum og orðum.