150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[15:54]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir að hefja þessa umræðu og ráðherra fyrir að vera hér til svara. Þetta vandamál heilt yfir hefur verið þeim sem hér stendur mikið hjartans mál og langar mig í þessari ræðu að talaði um aukna lengd á biðlistum eftir meðferð, sem er ein af spurningunum. Nú hefur komið fram að biðlistar hafa lengst upp í 700 manns, voru lengi vel 600. Ráðherrann minntist á það áðan að sett hefði verið aukið fjármagn í þennan lið í fjárlögum í fyrra, upp á 150 milljónir. Þeir peningar fóru ekki beint í þessa vinnu heldur í aðra vinnu og nú lengist biðlistinn. Þetta er grafalvarlegt mál og alveg ótrúlegt að við skulum ekki geta unnið að því að stytta biðlistana þannig að við getum hjálpað fólki sem vill komast í meðferð. Það er einu sinni þannig að þeir sem eru haldnir þessum sjúkdómi, alkóhólisma, fíknisjúkdómum, eru ekki alltaf tilbúnir til að leita að hjálpinni. Þegar það kemur upp að þeir gefast upp og biðja um hjálp er mjög æskilegt að hjálpin sé til staðar. Þeir sem lenda inni á biðlistum eru margir hverjir horfnir út af þeim þegar röðin kemur að þeim eða jafnvel dánir. Það er óboðlegt. Ég skora því á stjórnvöld og heilbrigðisráðherra að vinna að því, í samráði við meðferðarstofnunina Vog, að koma þessum málum í lag. Þar er fagfólk sem kann algerlega á þessi mál, best allra heilbrigðisstarfsmanna á Íslandi í sambandi við fíkniefnamál.