150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:01]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Hér ræðum við að frumkvæði hv. þm. Ingu Sæland hvort fíkniefnafaraldur geisi á Íslandi. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir að vekja máls á málefninu því að það er mjög mikilvægt að halda umræðunni um þetta mikilvæga efni gangandi, upplýsa og fræða án þess þó að vera með upphrópanir eða hræðsluáróður. Því miður er það staðreynd að aðgengi að fíkniefnum er auðvelt í dag og er fíkniefnaakstur t.d. orðinn mun algengari en akstur undir áhrifum áfengis. Það er í sjálfu sér áhyggjuefni. Málshefjandi beindi athyglinni sérstaklega að ákveðnum efnum, svo sem ópíóíðum, amfetamíni og kókaíni, og tek ég undir áhyggjur hennar af auknu magni þessara hörðu efna í umferð. Fylgifiskur kókaíns hefur verið krakkkókaínreykingar en mér skilst að þær nái því miður niður til ungmenna.

Varðandi íslensk ungmenni eru reglulega gerðar kannanir í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskólum á vegum rannsóknamiðstöðvarinnar Rannsóknir og greining sem mæla ýmsa þætti í lífi ungmenna, svo sem áfengis- og vímuefnaneyslu. Á undanförnum árum höfum við ekki séð niðurstöður sem gefa til kynna að neysla vímuefna sé að aukast hjá þessum hópi sem er mjög ánægjulegt miðað við hvernig staðan er í dag. Hver og einn einstaklingur er mikilvægur og við þurfum að efla úrræði þar sem þau þurfa að vera til staðar í samfélaginu. Partur af því er svokallað MST-meðferðarúrræði á vegum Barnaverndarstofu fyrir fjölskyldur barna á aldrinum 12–18 ára sem glíma við alvarlegan hegðunar- og/eða vímuefnavanda en þar hefur starfsemin verið efld til muna að undanförnu til að auka aðgengi um allt land að þjónustunni og útrýma biðlista sem var eftir meðferðinni.

Fræðsla og forvarnir eru mjög mikilvægar og aðdáunarvert að sjá þann kraft sem einstaklingar og félagasamtök geta leyst úr læðingi og er nauðsynlegt að ríkið geri þeim kleift að halda úti öflugri starfsemi á landsvísu.