150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Vímuefnamisnotkun, fíkn og önnur vandamál sem eru til komin vegna vímuefnaneyslu verða alltaf hluti af samfélagi okkar og hafa alltaf verið þó að það sé tiltölulega nýlegt að mikil áhersla hafi verið lögð á svokölluð ólögleg vímuefni. Ég þakka fyrir þessa umræðu því að hún er mikilvæg. Mjög mikilvægt er að við stöndum okkur vel í forvörnum, í meðferðarúrræðum, fræðslu og öllu því. Ég dreg ekki neitt úr því, en mér finnst samt skrýtið hvernig reynt er á Alþingi Íslendinga, í fjölmiðlum og í almennu samfélagi að hugga sjúklinginn á sama tíma og hann er rassskelltur. Hvað sem einstaka þingmönnum hér inni gæti þótt um vímuefnaneytendur er þetta hataður hópur í samfélaginu. Hann er hataður og farið er illa með hann. Ég held að áður en fólk þróar með sér alvarlegan fíknivanda neyti það vímuefna í einhvern tíma án þess að lenda í sjáanlegum vandræðum. Á öllum þeim tíma er alið upp í fólki af yfirvöldum sjálfum að óttast yfirvöld og vantreysta þeim. Ég er með þá kenningu að það sé hluti vandans.

Ef það á að vera trúverðugt að okkur hérna sé ekki sama um þennan hóp þurfum við að sýna í verki að okkur sé ekki sama um hann. Það þýðir t.d. að við eigum að afnema refsingar fyrir vörsluskammta til að byrja með. Það er eitt af því sem við þurfum að gera. Hér liggur fyrir ágætt frumvarp hv. þm. Halldóru Mogensen um það efni og á því eru allir flokkar sem hér sitja fyrir utan Framsókn, Sjálfstæðisflokk og Miðflokk. Með þessu vil ég ekki draga úr neinu öðru sem aðrir hafa talað um í sambandi við mikilvægi þess að hafa sterkar forvarnir og meðferðarúrræði og styrkja þau eftir þörfum hverju sinni en við megum ekki gleyma þessum hluta heldur. Hvort sem þetta eru sjúklingar eða fólk sem verður kannski einhvern tímann seinna sjúklingar, og kannski ekki, á ekki að refsa þeim á sama tíma og við stöndum hér og segjumst ætla að (Forseti hringir.) hjálpa þeim svona mikið.