150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

fíkniefnafaraldur á Íslandi.

[16:16]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er gömul saga og ný að við Íslendingar eyðum stundum gríðarlegum tíma í mál sem það eru svolítið léttvæg en allt of litlum tíma í mál sem raunverulega skipta máli. Hvort þetta er dæmi um það að við fyllumst algjöru vonleysi gagnvart risavöxnu verkefni eða kunnum einfaldlega ekki að greina hismið frá kjarnanum veit ég ekki, en við þurfum a.m.k. að setja fókus á það sem skiptir máli.

Hér er t.d. allt búið að vera hrökkva af hjörunum að undanförnu vegna þess að sex einstaklingar hjá 300 milljóna þjóð hafa látist vegna notkunar á veipi. Orsökin er ekkert endilega ljós. Vissulega hefur farið fram umræða hér og það þarf að taka hana. Það þarf að halda þessu frá ungmennum en mér finnst einfaldlega meiri doði búinn að vera að undanförnu gagnvart hörðum fíkniefnum. Árlega deyja mjög margir vegna þessa fjanda og hann fer ekki í manngreinarálit.

Fólk getur rétt ímyndað sér að ef hér dæju 40–50 ungmenni á stuttu tímabili vegna umferðarslysa væri búið að ræsa hverja einustu malbikunarvél í landinu, allan verkfræðiflotann og setja upp eitthvað til að takast á við þetta. Þá héti það neyðarástand. (Forseti hringir.) Við erum auðvitað að glíma við neyðarástand. Góðu fréttirnar eru hins vegar að þetta er ekki flokkspólitískt mál. Þetta er nokkuð sem við öll ættum að geta sameinast um að verja meiri tíma og fjármunum í, hvort sem um er að ræða forvarnir, að bæta samfélag og líðan fólks eða meðferð, úrræði og rúm, hv. þm. Brynjar Níelsson.