150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

Akureyri sem miðstöð málefna norðurslóða á Íslandi.

182. mál
[16:55]
Horfa

Flm. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni aftur fyrir þetta síðara andsvar og fyrra andsvarið. Mér finnst þetta mjög áhugaverðar hugmyndir og mikilvægar pælingar og gaman að fá tækifæri til að ræða þær.

Jú, ég sé auðvitað fyrir mér að þetta gæti einmitt eflt Háskólann á Akureyri sem hefur verið með þá sérstöðu háskóla á Íslandi að fjalla um heimskautarétt. Það er eitt af því sem við hljótum að horfa til að efla enn frekar og er ekki síður mikilvægt í því samhengi sem við erum í í heiminum í dag, þar sem fókusinn er að færast æ meira á norðurslóðir. Undirliggjandi er möguleg hætta á átökum og ég sé svo sannarlega fyrir mér að stofnanir á Akureyri geti lagt sitt af mörkum, t.d. háskólinn með heimskautaréttinum, til að minnka spennuna og vera vettvangur skoðanaskipta á norðurslóðum. Á Akureyri er nefnilega líka alls kyns sérþekking sem er vert að deila á norðurslóðum. Það er ekki bara heimskautarétturinn eða jafnréttismálin, ég get líka nefnt umhverfismálin og það sem Akureyrarbær og Norðurlandið hefur verið að gera í umhverfismálum, sem er hreinlega til fyrirmyndar.

Varðandi það hvort þetta sé viðurkennt í samfélaginu hefur mér þótt það, já. Þess vegna hef ég ekki alveg skilið þetta hik við að stíga það skref að gera það formlega. Auðvitað er víða verið að vinna að norðurslóðamálum, en mín tilfinning hefur verið frekar sú að menn líti svo á að á Akureyri hafi sérþekking safnast saman og sé þar með miðstöð norðurslóða á Íslandi. Því held ég að við eigum ekkert að hika við að gera þetta formlegt og lýsa því yfir að það verði svo.