150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

meðferð einkamála.

159. mál
[17:39]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Það er ekki bara um rökstuðning fyrir því hver skuli greiða málskostnað heldur líka fjárhæðirnar sem ég er að ræða. Nýlegt dæmi er úr dómi Landsréttar sem var kveðinn upp núna fyrir helgi þar sem í rauninni er sett ofan í við héraðsdómara sem ákveður á lægra dómstigi að skera mjög af málskostnaði eða þóknun lögmannsins í því máli. Um var að ræða gjafsóknarmál í forsjársviptingarmáli gegn barnaverndarnefnd. Dómarinn setti í rauninni ofan í við lögmanninn fyrir að þetta mál væri yfirleitt komið fyrir dóm. Þarna er auðvitað um að ræða einhverja mikilvægustu hagsmuni foreldris, þ.e. að fá að halda forsjá yfir barni sínu en dómarinn ákveður greinilega snemma að þetta hafi verið tilhæfulaus málsókn og að lögmaðurinn eigi að bera sjálfur kostnaðinn af því að hafa ekki stöðvað þá málsókn. Þar fer maður að velta fyrir sér rétti fólks til að leita réttar síns fyrir dómi, sem er auðvitað meðal grundvallarréttinda fólks.

Þess vegna spyr ég þingmanninn að þessu, hvort það væri ekki réttara að hafa bara skýr ákvæði um að dómari skuli rökstyðja málskostnað sem úrskurðaður er, hvort sem um er að ræða rökstuðning fyrir hver eigi að borga eða hver fjárhæðin verði, því að réttur til að leita til dómstóla skerðist verulega ef maður situr uppi með stórkostlegan kostnað af því að leita réttar síns.