152. löggjafarþing — 17. fundur,  27. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum.

151. mál
[16:23]
Horfa

Sigþrúður Ármann (S):

Frú forseti. Gleðilega hátíð. Það er mér mikill heiður að standa í ræðustól Alþingis. Ég fylltist stolti þegar ég ritaði undir drengskaparheit í síðustu viku þegar ég tók sæti hér á Alþingi. Góð kona benti mér á að orðið drengskaparheit lýsi kannski vel þeim mun sem áður voru á hlutskipti kynjanna í samfélaginu og hlutverkaskiptingu þeirra. Til allra heilla erum við komin miklu lengra í jafnréttismálum í dag en áður var og vil ég nota tækifærið og þakka þeim sem rutt hafa brautina. Við þurfum að halda áfram að varða veg jafnréttis á öllum sviðum og fagna fjölbreytileika í samfélaginu.

Alþingi er einn mikilvægasti umræðuvettvangur samfélagsins og hlutverk þess viðamikið, þ.e. að setja öðrum handhöfum ríkisvaldsins, stofnunum og borgurum ríkisins lög. Við ræðum hér þessa dagana frumvarp til fjárlaga og frumvörp um skatta og gjöld, frumvörp sem boða endurreisn efnahagslífsins í kjölfar heimsfaraldurs. Markmiðið er að létta byrðum af fólki og fyrirtækjum en um leið auka aðhaldsstig ríkisfjármála á næsta ári. Það er sameiginlegt verkefni okkar að byggja upp samfélag sem stuðlar að velferð, lífsgæðum og efnahagslegri sjálfbærni til framtíðar, samfélag þar sem aðgangur að framúrskarandi og fjölbreyttri menntun og góðu heilbrigðiskerfi er í boði fyrir alla óháð því hvaða forgjöf við fæðumst með. Á meðan ég stend hér í þessari merku pontu er fjöldinn allur af fólki úti í samfélaginu að sinna margvíslegum og mikilvægum störfum. Í harðfiskverkuninni sem ég hef aðkomu að er fjölbreyttur hópur starfsfólks af ólíkum þjóðernum að meðhöndla fersk fiskflök, nýveiddan fisk við Íslandsstrendur. Það dugmikla starfsfólk er að skapa verðmæti fyrir íslenskt samfélag. Fjölbreyttur atvinnurekstur lítilla, meðalstórra og stórra fyrirtækja á Íslandi leggur grunninn að velferð, framþróun og hagsæld og stendur undir grunnstoðum samfélagsins, menntakerfinu, heilbrigðiskerfinu, velferðarkerfinu, samgöngum, innviðum, menningu og listum. Það er því hagur okkar allra að efla atvinnulíf.

Áætlanir sem fjárlögin byggja á gera ráð fyrir kröftugum hagvexti. Við höfum alla burði til að ná þessum mikla hagvexti en til þess þurfum við að styðja við atvinnulífið, m.a. með lágum sköttum og gjöldum, þar á meðal tryggingagjaldi, en ein helsta hindrun fyrirtækja í dag er launakostnaður sem þróast hefur úr takti við verðmætasköpun. Þær launahækkanir sem hið opinbera hefur leitt hafa þyngt rekstur og skapað verðbólguþrýsting og skert samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Það er atvinnulífsins að leiða vöxt á vinnumarkaði og fjölga störfum en ekki hins opinbera. Það þarf að minnka umsvif í rekstri hins opinbera og útvista verkefnum enn frekar, semja þar um þjónustu sem greidd er af hálfu hins opinbera og setja viðmið um gæði og öryggi, hvort sem þjónustan er veitt af hinu opinbera eða einkaaðilum. Óskilgreind viðmið geta leitt af sér óhagræði og sóun og það þarf að skapa hvata hjá hinu opinbera til að hagræða í rekstri. Litlir hvatar eru til hagræðingar í starfsemi hjá opinberum aðilum sem ekki fá úthlutað fjármagni á verkefnabundnum grunni. Við þurfum að efla atvinnulífið og skapa hvetjandi umhverfi þar sem fólk fær tækifæri á ólíkum aldri til að nýta hæfileika sína.

Ég ber mikla virðingu fyrir þeim kynslóðum sem á undan komu, eldri borgurum sem hafa skilað miklu dagsverki og lagt grunninn að velsældarþjóðfélagi og þeim þjóðarauð sem við njótum í dag. Forræðishyggja hins opinbera í garð eldri borgara þarf að víkja fyrir frelsi þeirra. Aldur er afstæður og ekki er hægt að setja sömu viðmið fyrir þennan stóra og ólíka hóp. Það er til góðs að tvöfalda eigi frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. Að mörgu öðru þarf að huga í málefnum eldri borgara og mikilvægt að móta heildstæða stefnu. Við eigum bæði að vilja verða öldruð og vera öldruð.

Hvatinn til að láta til sín taka þarf að ná til sem flestra og við þurfum að styðja öryrkja til aukinnar virkni á vinnumarkaði. Yfir 21.000 manns teljast til öryrkja og væri það mikið framfaraskref að virkja þá sem það geta til aukinna starfa. Til að svo megi verða þarf að eiga sér stað starfsgetumat og síðustu ár hefur ríkisstjórnin tekið frá fjármuni til að framkvæma megi það og gera breytingar á högum öryrkja. Róttækar breytingar eru nauðsynlegar á tryggingakerfi öryrkja en þær verða ekki gerðar nema í samvinnu og sátt við öryrkja. Markmiðið er að tryggja afkomu þeirra en um leið aukna virkni þeirra og auðvelda þeim þátttöku í samfélaginu á öllum sviðum, ekki síst á vinnumarkaði.

Það er jákvætt að sjá að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er lögð mikil áhersla á nýsköpun og innviðauppbyggingu. Við lifum á tímum þar sem samfélagsbreytingar eru ekki bara djúpstæðar heldur ganga þær yfir á sívaxandi hraða. Í því felst mikil áskorun en jafnframt tækifæri. Tækifærin felast ekki síst í möguleikum velferðartækni en með henni getum við aukið þjónustu og um leið lækkað kostnað. Samkeppnisforskot okkar er græn orka og við þurfum að nýta auðlindir okkar á sjálfbæran hátt til uppbyggingar atvinnulífs og orkuskipta hér á landi. Við þurfum að endurhugsa, endurmeta og endurvinna. Við eigum mikið undir sem þjóð og eigum að vera í fremstu röð þegar kemur að umhverfis- og loftslagsmálum.

Það er jákvætt sem kemur fram í stjórnarsáttmálanum að stuðla eigi að því að fjölga ávöxtunarmöguleikum lífeyrissjóðanna og möguleikum til aukinnar þátttöku í innviðafjárfestingum og grænum fjárfestingum.

Virðulegi þingheimur. Til að stuðla að þeirri velferð sem ég hef farið hér yfir þurfum við að auka verðmætasköpun með öflugri innlendri framleiðslu og treysta stoðir útflutningsfyrirtækja því þar liggur grunnurinn að gjaldeyrissköpun landsins. Þannig tryggjum við stöðu og lífskjör í landinu og löðum að erlendar fjárfestingar.

Heimsmyndin er gjörbreytt. Áður var Ísland stökkpallurinn milli austurs og vesturs. Nú er landið miðdepill norðurslóðanna, loftslagsmál og umhverfisvá fá meira vægi, ekki síst hjá yngri kynslóðum og afstaða til kynjajafnréttis, frelsis og mannréttindamála skiptir nýjar kynslóðir miklu máli. Það er okkar að móta framtíðarsýn sem stuðlar að umhverfis- og efnahagslegri sjálfbærni til framtíðar og ég hlakka til málefnalegs og uppbyggilegs samtals við ykkur um framtíðarsýn íslensks samfélags.