154. löggjafarþing — 17. fundur,  18. okt. 2023.

bættar vegasamgöngur yfir Hellisheiði.

58. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Tillaga þessi var áður flutt á 152. og 153. löggjafarþingi, 771. mál, og er nú endurflutt með smávægilegum breytingum á greinargerð. Umferð um Hellisheiði hefur aukist verulega á síðustu árum. Samkvæmt tölum frá Vegagerðinni fóru að meðaltali um 10.000 bílar yfir Hellisheiðina á dag árið 2022. Aukinn umferðarþunga yfir Hellisheiði má að einhverju leyti skýra með fjölgun ferðamanna, en nær 80% ferðamanna sem koma til landsins leggja leið sína um Suðurland og telja má víst að langflestir þeirra keyri yfir Hellisheiðina. Þó er ein af meginástæðum aukins umferðarþunga yfir Hellisheiði sú að vinnusóknarsvæði höfuðborgarsvæðisins hefur teygt anga sína langt austur fyrir fjall. Fyrir því eru fleiri en ein ástæða. Telja má að bættar samgöngur og skortur á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu leiki þar hlutverk ásamt því að fólk kýs í auknum mæli að búa í smærri, rólegri samfélögum. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni hefur íbúum í sveitarfélögum fyrir austan fjall farið ört fjölgandi, en frá árinu 2014 hefur íbúum á Selfossi fjölgað um 3.053. Þá hefur á sama tímabili íbúum fjölgað um 868 í Hveragerði og svipaða sögu er að segja af fjölgun íbúa í Þorlákshöfn en fjölgun hefur orðið í öllum þéttbýliskjörnum á svæðinu. Samkvæmt mannfjöldaspá er útlit fyrir að íbúum þar komi enn til með að fjölga á næstu árum. Samhliða fjölgun íbúa er einnig orðið algengara að fyrirtæki flytji starfsemi sína frá höfuðborgarsvæðinu í umrædd sveitarfélög.

Árið 2017 var gerð könnun á vinnusókn til höfuðborgarsvæðisins frá öðrum byggðarlögum á Suðvesturlandi. Könnun á vinnusókn til höfuðborgarsvæðisins frá Hveragerði, Ölfusi, Árborg og Flóahreppi sýndi að frá Hveragerði og Ölfusi komu 539 einstaklingar og voru konur 16% þeirra og karlar 37%, en frá Árborg og Flóahreppi komu 438 einstaklingar og voru konur 10% þeirra og karlar 20%. Því miður er ekki nýrri könnun að finna en ef fjöldi 18–80 ára íbúa árið 2023 er uppreiknaður miðað við sömu hlutfallstölur um vinnusókn og komu fram í rannsókninni eru alls 1.700 einstaklingar sem aka til höfuðborgarinnar til vinnu árið 2023. Þessar tölur sýna að stór hluti íbúa á þessu svæði sækir vinnu á höfuðborgarsvæðið og allar líkur eru á að þessi þessar tölur komi til með að hækka á komandi árum.

Veður á Hellisheiði geta verið válynd og vegurinn lokast með skömmum fyrirvara með tilheyrandi vandkvæðum. Flutningsmenn telja mikilvægt að kanna alla þá kosti sem í boði eru til að bæta vegasamgöngur yfir heiðina. Það má velta fyrir sér hvort kanna mætti möguleika á því að setja hluta af veginum í stokk til að koma í veg fyrir síendurteknar lokanir á Hellisheiðinni þegar vetrarmánuðirnir standa yfir og snjóþyngsli eru mikil. Veginum yfir Hellisheiði var lokað í 26 skipti á árinu 2022 og frá áramótum 2023 og fram í maí var honum lokað í sjö skipti og nú er nýhafinn yfirstandandi vetur og veginum hefur þegar verið lokað einu sinni.

Í síðustu viku mælti hæstv. innviðaráðherra fyrir samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 og fimm ára aðgerðaáætlun 2024–2028. Í henni er sérstaklega fjallað um vetrarþjónustu á vegum landsins og að hún sé ekki aðeins mikilvæg vöruflutningum því að áreiðanlegar samgöngur allan ársins hring geta skipt sköpum hvað varðar eflingu vinnusóknarsvæða. Í fyrravetur setti innviðaráðherra einnig af stað vinnu hjá Vegagerðinni hvað varðar endurskoðun á vetrarþjónustu og hvernig hægt sé að bæta hana, sem er vel því að góð vetrarþjónusta er lykilþáttur fyrir alla þá sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið og í þeim hópi fjölgar gríðarlega hratt.

Í ljósi aukins umferðarþunga, lokana og oft erfiðra veðurskilyrða tel ég mikilvægt að skoðað verði af fullri alvöru þá möguleika sem í boði eru til að bæta vegasamgöngur yfir vetrarmánuðina á Hellisheiði. Því er hér lagt til að innviðaráðherra skipi starfshóp sem verði falið að kanna allar mögulegar leiðir, því að markmiðið er ávallt að tryggja umferðaröryggi og bættar vegasamgöngur fyrir íbúa og fyrirtæki sem eru starfrækt á svæðinu.