132. löggjafarþing — 18. fundur,  9. nóv. 2005.

Sjúkraflutningar í Árnessýslu.

158. mál
[19:52]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir umræðuna og þær ábendingar sem hafa komið um Heilbrigðisstofnun Suðurlands, sem ég tek undir að nauðsynlegt sé að sé öflug og vel rekin og ég hef góðar vonir um að svo verði.

Í fyrsta lagi varðandi hugsanlegan halla á sjúkraflutningum. Ég vil taka fram að lögreglan gerði þetta fyrir 30 milljónir. Þeir voru að vísu ekki ánægðir með þá upphæð enda eru þetta orðnar 50 milljónir sem Heilbrigðisstofnunin hefur til þess að sinna þeirri starfsemi. Það er mat framkvæmdastjóra stofnunarinnar að þeir starfskraftar sem muni koma að þessu muni styrkja starf stofnunarinnar að öðru leyti.

Hitt vildi ég taka fram að ég hef verið í ágætum viðræðum við Magnús Skúlason, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, í okkar umboði við Brunavarnir Árnessýslu um húsnæðismál. Ég er jákvæður í því máli að reyna að samnýta húsnæðið fyrir þær stofnanir. Mér skilst að núna séu menn farnir að ræða það á Selfossi að björgunarsveit, Brunavarnir og Heilbrigðisstofnunin fari í eitt húsnæði og það finnst mér besti kosturinn. Ég er tilbúinn að stuðla að því, því að þá eru þeir sem sinna þessum mikilvægu málum komnir undir eitt þak.