133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

fæðingarorlofsgreiðslur og umönnunarbætur.

104. mál
[13:53]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir nokkru var í umræðunni og á því vakin athygli að umönnunargreiðslur vegna fatlaðra barna séu ekki greiddar samtímis fæðingarorlofsgreiðslum og sýnt fram á hve gífurlega illa þetta óréttlæti bitnar á foreldrum fatlaðra barna. Sjónvarpið sýndi viðtal við foreldra þriggja ára fatlaðs barns sem þurftu lengi að vera utan vinnumarkaðar vegna mikillar umönnunarþarfa barnsins. Auðvitað voru þessir foreldrar bitrir út í stjórnvöld og sögðu að þau hefðu aldrei komið yfir þetta nema með aðstoð og hjálp vina sinna.

Það er, virðulegi forseti, aldeilis furðulegt að hvorki ábendingar umboðsmanns Alþingis né mótmæli frá ýmsum aðilum, m.a. okkur í Samfylkingunni, við þessu óréttlæti og tillöguflutningur á Alþingi hafi ekki dugað til að leiðrétta þetta mál og þá annmarka á fæðingarorlofslöggjöfinni. Félagsmálaráðherra sagði af því tilefni þegar þetta birtist í sjónvarpi að hann ætlaði að athuga málið.

Á Alþingi hef ég margsinnis vakið athygli á þessu. Síðast fyrir tveimur árum fluttum við í Samfylkingunni breytingartillögu við fæðingarorlofslögin um að það bæri að greiða umönnunargreiðslurnar samhliða fæðingarorlofsgreiðslum vegna fatlaðra barna. Því miður var sú tillaga felld og því er þetta óréttlæti enn við lýði.

Stjórnarliðum má fullvel vera ljóst, ef þeir kynntu sér málið, hve mikið réttlætismál það er að breyta lögunum til hagsbóta fyrir foreldra fatlaðra barna. Nægir eru erfiðleikarnir sem þeir þurfa að takast á við þó stjórnvöld hafi kosið að horfa algerlega fram hjá þessu óréttlæti. Það hefur allan tímann legið í augum uppi að umönnunargreiðslur eru ætlaðar til að mæta viðbótarútgjöldum sem foreldrar verða fyrir vegna fötlunar barnsins og því er ekkert sem réttlætir það að ekki sé hægt að greiða þær samtímis.

Það mæla, virðulegi forseti, sem sagt engin rök með því að foreldrar sem eignast börn sem þurfa sérstakrar umönnunar við samkvæmt mati verði án þeirra greiðslna í fæðingarorlofi, enda eðli málsins samkvæmt um viðbótarútgjöld að ræða.

Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. félagsmálaráðherra eftirfarandi fyrirspurn: Hvaða rök eru fyrir því að umönnunargreiðslur eru ekki greiddar samtímis fæðingarorlofsgreiðslum? Og í annan stað: Er ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir lagabreytingu sem tryggi að foreldrar fatlaðra barna geti fengið umönnunargreiðslur samtímis greiðslum í fæðingarorlofi?

Rétt er að rifja upp að í svari við fyrirspurn minni á Alþingi fyrir fjórum árum kom fram að 112 börn fædd árin 2001 og 2002 hafa fengið umönnunarmat. Í svarinu kom fram að telja megi nokkuð ljóst að í tilvikum 36 barna sem fæddust á árinu 2001 og tíu barna sem höfðu fæðst á árinu 2003, þegar svarað var, hefðu umönnunarbætur verið greiddar frá fæðingu, ef umönnunargreiðslur og fæðingarorlof mætti greiða saman, en það er bannað samkvæmt núgildandi ákvæði.

Félagsmálaráðherra hefur gefið vonir um að hann muni bregðast við með jákvæðum hætti og leiðrétta þetta ranglæti og ég vona að það verði svarið sem við fáum í þessum ræðustóli í dag.