133. löggjafarþing — 18. fundur,  1. nóv. 2006.

raforkuverð til garðyrkjubænda.

150. mál
[15:33]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Það verður örugglega svo um ókomin ár að hér verður rætt um raforkuverð eftir þá breytingu sem hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra beitti sér fyrir á síðasta þingi, þ.e. breytinguna í frjálsræðisátt.

Hér hefur verið gert að umtalsefni raforkuverð til garðyrkjubænda, áður hefur verið rætt um fiskeldið. Því var reddað fyrir horn á síðustu stundu en eftir stendur, og það vil ég spyrja hæstv. núverandi iðnaðarráðherra út í, formann Framsóknarflokksins, sú stórkostlega hækkun sem hefur orðið á raforkuverði til fólks í dreifbýli og þá alveg sérstaklega til bænda og fólks á minni stöðum: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því að lækka þann raforkukostnað, þann raforkureikning sem hefur hækkað um allt að 40–50% frá því að þessi breyting var gerð? Hvað hyggst formaður Framsóknarflokksins leggja til í þessum málum eða á þetta fólk að bera þá hækkun sem þarna hefur komið fram, (Forseti hringir.) breytingu sem var sagt þegar málið var flutt að mundi ekki hafa neina hækkun í för með sér fyrir neina aðila?