136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

LÍN og námsmenn erlendis.

[10:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fagna því ef einhverjar aðgerðir verða kynntar í dag því ég tel að þetta sé erfið staða eins og kom fram áðan. Ég tel einnig að sú staða sem nú er uppi gefi okkur tilefni til að ráðast í endurskoðun á námslánakerfinu því eitt af því sem hefur staðið upp úr námsmönnum, sem hafa örugglega haft samband við fleiri þingmenn en mig, er yfirdráttarkerfið, að námsmenn séu settir í þá stöðu að taka yfirdráttarlán í upphafi annar og fá námslánin greidd eftir á. Þetta kerfi hefur nú verið við lýði í talsvert mörg ár eða frá 1992 og ég held að í framhaldinu, þegar við skoðum þessi mál heildstætt, sé full ástæða til að endurskoða þennan þátt lánakerfisins því þetta setur fólk oft í mjög erfiða stöðu, að vera komið í yfirdráttargildruna strax frá fyrstu önn í námi og eiga jafnvel erfitt með að losna úr henni til frambúðar.