136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[14:30]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er töluverður munur á einstaklingsframtaki og einkaframtaki. Ef við tökum t.d. verslanirnar sjáum við að kaupmennirnir hafa orðið að lúta í gras fyrir stórum verslunarkeðjum og einkaframtakið í þeim skilningi er þá ekki orðið beint einstaklingsframtak heldur eitthvað allt annað. Ég vil t.d. draga skýr mörk á milli kaupmannsins í Melabúðinni og Baugs eða 10–11 búðanna, (Gripið fram í.) þar er gríðarlegur munur.

Af því að hv. þingmaður veltir fyrir sér þessari tillögu og er meðflutningsmaður á henni bendi ég á að ein af meginröksemdum sem tilgreindar eru í tillögunni er hversu vel hafi tekist við einkavæðingu bankanna og reyndar einnig fjarskiptaþjónustunnar. Það væri fróðlegt að vita hvort þingmaðurinn er enn þá þeirrar skoðunar að hægt sé að sækja gott fordæmi fyrir áframhaldandi einkavæðingu, aukinni einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, eins og sjálfstæðismenn leggja mikið kapp á núna og hafa gert í tillöguflutningi sínum. Er það gott fordæmi eins og hér er gert að vísa til þess að hvað einkavæðing bankanna hafi tekist vel og að þingmálinu um einkavæðingu bankanna sé dreift hér sama dag og síðasta bankinn var ríkisvæddur? Nei, ég held að það sé einmitt dæmigerð tillaga um veruleikafirringu þingmanna Sjálfstæðisflokksins að halda að aukin einkavæðing í almannaþjónustu sé eitthvað sem nú þurfi að keppa að. Þetta er bara dæmigerð veruleikafirring, því miður, og hún er mjög alvarleg.