137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[13:48]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það hefur verið gaman að fylgjast með í morgun umræðum um þessa þingsályktun sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins flytur, fara yfir hana og hlusta. Ég ítreka það sem ég hef áður sagt í stuttum andsvörum: Mér finnst virðingarvert hjá Sjálfstæðisflokknum að setja þessa tillögu fram. Ég skal ekki nudda meira salti í sárin hvað varðar skilanefndina og uppgjörið heldur horfa til framtíðar. Það væri ágætt að allir gerðu meira af því, okkur veitir svo sannarlega ekki af því, Íslendingum, að horfa meira til framtíðar og samræma þær aðgerðir sem við þurfum að fara í eftir það hrun sem átti sér stað.

Flestar af þeim tillögum sem hér eru settar fram eru auðvitað gamalkunnar og þekktar en hér er lögð fram ný tillaga sem ekki hefur verið mikið rætt um. Ég ætla að gera hana að umtalsefni hér en hún er sú að það er lagt til að skoðaðir verði kostir og gallar — tek það skýrt fram eins og stendur hér í tillögunni — á kerfisbreytingu á innheimtu skatta á lífeyrisgreiðslur. Það sem hér er sett fram er einfaldlega: Eigum við að skattleggja þessar lífeyrisgreiðslur — hér kemur fram að þær voru 162 milljarðar kr. árið 2007 núvirt með launavísitölu, sem gæti þá gefið allt að 40 milljarða í skatttekjur, þ.e. þessi kerfisbreyting ef litið er fram hjá mögulegum áhrifum persónuafsláttar sem hér hefur ekki verið gert.

Þetta er að mínu mati það merkilegasta í því plaggi sem hér er sett fram, þetta er nýmæli og þetta ber að skoða. Ef hægt er að fara þessa leið og komast hjá því að fara í eins miklar skattahækkanir og e.t.v. þyrfti eða niðurskurð í velferðarkerfinu eða hvar sem er í rekstri ríkisins, tekjufærslum, framkvæmdum og öðru, er hér hugmynd sem er einnar messu virði að skoða betur.

Virðulegi forseti. Mér dettur í hug að leggja fram þá spurningu — henni verður þá e.t.v. svarað af þeim sjálfstæðismönnum sem koma hér á eftir — hvort það hafi verið kannað hvort sú leið sem þarna er bent á yrði tímabundin, kannski til tveggja, þriggja ára, þannig að skatturinn sem tekinn er af þessum lífeyrisgreiðslum sé þannig settur fram að sá sem greiðir eignist það sem innstæðu hjá ríkissjóði. Þannig verður þetta ekki beinn skattur sem endanlega er tekinn af heldur hálfgert samkomulag milli lífeyrissjóðsgreiðenda, sem eru þá velflestir Íslendingar, og ríkisins um það að skatturinn af þessu, sem sjálfstæðismenn leggja hér til, komi inn í ríkissjóð á þessum erfiðleikatímum okkar og fari í reikning. Lífeyrissjóðsgreiðendur eiga hann þá inni hjá ríkissjóði og hann kemur svo til greiðslu þegar betur árar. Það verður auðvitað á næstu árum. Ekki ætlum við að lifa við þetta ástand. Vonandi heldur enginn að þetta hörmungarástand verði um aldur og ævi. Við munum vinna okkur upp úr þessu fljótt og vel og hraðar en ég held að við gerum okkur almennt grein fyrir. Ég hef ekki tíma til að fara meira út í það.

Það má kannski segja að hér sé um að ræða nýtískulega útgáfu af sparimerkjunum sem voru til í gamla daga. Þá var sparnaður tekinn af fólki áður en það gifti sig, svo og svo mikið af sparimerkjum sem voru svo útleysanleg þegar fólk gifti sig. Ég man eftir því sjálfur að ég átti töluvert í sparimerkjum þegar ég gifti mig og ég man að það var mikill og góður peningur sem létti manni það sem yfirleitt gerist fyrst á eftir, menn þurfa að koma sér þaki yfir höfuðið. Sparimerkjakerfið var lagt af. Sumir segja, þeir sem hugsa til þessa gamla tíma, því miður. Í þessu tilviki mætti því segja að lífeyrissjóðseigendur ættu nokkurs konar sparimerki inni hjá ríkissjóði. Mig langar að spyrja þá sem hafa flutt þessa tillögu hvort þetta hafi verið skoðað.

Virðulegi forseti. Margt annað er sett fram í þessari tillögu sem ég ætla ekki að fjalla mikið um. Mér finnst þó, og tek undir það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan, mjög merkilegt að sjá hér í fyrsta skipti í tillögu frá sjálfstæðismönnum, eins og segir í kaflanum um atvinnumál og nýsköpun, að við eigum að horfa á erlenda fjárfestingu og uppbyggingu í orku og orkugeiranum og allt það og að ekki sé eingöngu horft til uppbyggingar álvera.

Það er nýmæli að sjá þetta í tillögu frá sjálfstæðismönnum — (REÁ: Hvað hefurðu lesið margar tillögur frá Sjálfstæðisflokknum?) ég held ég hafi hlustað á þær flestar, þær hafa ekki verið neitt voðalega margar upp á síðkastið. En þarna er þetta sett fram og ég bið þá bara um að það verði leiðrétt ef það hefur áður komið fram. Inn í þennan kafla, um atvinnumál og nýsköpun — það er náttúrlega ákaflega mikilvægt að gefa svolítið vel í, við þurfum að byggja atvinnulífið upp. Gott og öflugt atvinnulíf verður undirstaða velferðarkerfisins, að fólk hafi vinnu og borgi skatta svo að ríkisvaldið geti fengið þá skatta og dreift út til þeirra sem á þurfa að halda. Ég minni þá á það sem hér hefur líka komið fram, þá samstöðu sem var — það var skrifað inn í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, um rammaáætlunina sem er í gangi, og ég vænti þess að — ja, ég tók það þannig að allir þingflokkar hafi fengið kynningu á þeim drögum sem þar voru. Það var alla vega kynnt þingflokki Samfylkingar um daginn og mig minnir að ég hafi séð framsóknarmenn koma á eftir okkur til þeirrar kynningar. Þetta er ákaflega mikilvægt vegna þess að við þurfum að horfa til þessara þátta.

Virðulegi forseti. Í mitt ráðuneyti, ráðuneyti fjarskiptamála, hafa komið fjölmargir aðilar til að ræða um fjarskiptin við útlönd og sæstreng til Ameríku. Sem betur fer fer lagningu Danice að verða lokið á næstu vikum og verður þá komið almennilegt gott hringtengingarkerfi og hinn gamli Farice leggst af. Þeir aðilar sem vilja koma hingað og byggja upp, sækja hér í græna orku, sækja í menntunarstig okkar, hreina orku og allt þetta spyrja hins vegar: Hvernig verður með efnahagsmálin? Hver verður framtíðargjaldmiðillinn? Það er dálítið merkilegt að þeir aðilar eru jafnvel hræddari við það en efnahagskreppuna og fjármagnsörðugleika í heiminum, þeir koma til landsins og spyrja frekar út í gjaldmiðilinn en það. Þess vegna er kaflinn um peningamálastefnuna ákaflega merkilegur en forðast kannski — þó er sagt að athugun með framtíðarfyrirkomulag gjaldmiðla verði þegar hafin.

Ég minnist þess að formaður Sjálfstæðisflokksins, 1. flutningsmaður þessarar tillögu — ég veit ekki hvort það var á þessu ári eða í lok síðasta árs — hefur skrifað greinar þar sem talað var um upptöku evru, að það geti ekki gerst nema með aðild að Evrópusambandinu, sem er að sjálfsögðu hárrétt. En rétt fyrir kosningar kom nýtt útspil, þ.e. að taka upp evru í nánu samstarfi og í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Það var líka dálítið merkilegt. Hérna opna sjálfstæðismenn á það, þó að þeir tipli í kringum það eins og kettir í kringum heitan graut þá eru sagðir hér ákveðnir hlutir í þessu. Hv. þm. Pétur Blöndal fór í andsvar við hæstv. utanríkisráðherra og spurði hvenær við héldum að evra yrði tekin upp, hann vísaði í einhverja dómsdagsspá úr fjármálaráðuneytinu um 30 ár eða hvað það var. Ég tel svo ekki vera en lokaorð mín eru þau að jafnmikilvægt og það er að reyna að mynda sem mesta þjóðarsamstöðu um þær aðgerðir sem þarf að vinna í ríkisfjármálum og öllu — víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins og stjórnarandstöðuflokkana eins og þeir eru komnir að — þá er líka mikilvægt að taka þetta atriði fyrir. Ég ber hiklaust þá von í brjósti að í utanríkismálanefnd ljúki þeirri vinnu hjá fulltrúum allra flokka, að menn reyni að búa til eina heildstæða tillögu um Evrópusambandið til að leggja fram á Alþingi þannig að við getum þá samþykkt að ganga til aðildarviðræðna. Hver hefur skaðast af því að fara út í lönd og spyrja spurninga og fá svar?

Virðulegur forseti. Að mínu mati er ein spurning kannski mikilvægust í því spurningaflóði sem þarf að setja fram í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Hún er þessi: Getum við Íslendingar fengið undanþágu frá Maastricht-samkomulaginu um að fá að taka upp evru fyrr en við munum uppfylla þau skilyrði sem þar eru sett? Þetta er að mínu mati eitt mikilvægasta atriðið í uppbyggingu atvinnulífsins og íslensks efnahagslífs á ný. Ef ég heyri rétt að þetta sé tillaga Sjálfstæðisflokksins (REÁ: Þetta er tillaga Sjálfstæðisflokksins frá því fyrir kosningar.) þá fagna ég því og þá sýnist mér eitt atriði frá. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd munu þá leggja sitt af mörkum við að búa til eina heildstæða góða tillögu (Gripið fram í.) sem kemur hér inn og við (Forseti hringir.) samþykkjum hana sem fyrst, áður en þessi mánuður verður liðinn.