137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:00]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt ef sjálfstæðismenn taka það óstinnt upp annars vegar að tillögunni sé fagnað og því sem er þar nýtt og kemur þar inn og hins vegar að minnst sé á atriði sem koma fram í greinargerðinni eins og um peningamálastefnuna sem mér finnst mjög heiðarlegt af sjálfstæðismönnum að setja fram. Mér finnst það leitt ef sjálfstæðismenn taka það svona illa upp að um þetta sé rætt. Þetta er nú einu sinni fyrsta stóra tillaga Sjálfstæðisflokksins frá efnahagshruninu eða frá því að þarsíðasta ríkisstjórn sprakk og frá kosningum. Það er töluvert heiðarlegt uppgjör sem þarna kemur fram. En ég skal ekki gera meira af því í dag að fara í andsvör og rifja það upp sem þarna stendur. Ég skal lofa sjálfstæðismönnum því, virðulegi forseti, að salta ekki meira í þau sár.

Ég kannast ekki við neina skuld Samfylkingar við Framsóknarflokkinn vegna stuðnings við minnihlutastjórnina sem tók við 1. febrúar. Framsóknarflokkurinn á ekkert þar inni enda held ég held að flokkurinn hafi ekki sent neina reikninga eða greiðsluseðla fyrir því.

En aðeins í lokin varðandi þá fjárfesta sem hingað eru að koma. Það má enginn skilja orð mín svo að þeir séu ekki að hugleiða að koma, en það er dálítið merkilegt hve mikil umræða fer í efnahagsmálin og gjaldmiðilinn og þegar menn draga jafnvel upp súlurit eða línurit af sveiflum íslensku krónunnar þá eru þetta oft og tíðum síðustu spurningarnar sem koma: En hvað ætlið þið að gera með gjaldmiðilinn? Hver verður framtíðargjaldmiðill íslensku þjóðarinnar? Og af því, virðulegi forseti, að hv. 4. þm. Norðaust., Kristján Þór Júlíusson, spyr mig hver ég telji að verði framtíðargjaldmiðill íslensku þjóðarinnar, þá skal ég svara því alveg klárt, (Forseti hringir.) ég held að það sé ekki nokkur vafi að það verður evra.