138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:57]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrirspurn hans til mín. Ég efast ekki um að hann hafi fulla trú á staðfestu minni. Í það minnsta var undirbúningur (Gripið fram í.) þessarar fyrirspurnar í þeim anda að hann vildi gjarnan ganga úr skugga um að við næðum saman við þessa umræðu og það ber að virða það.

Ég hef engar áhyggjur af því hvernig kemur til afgreiðslu á þessu máli svo fremi sem alþingismenn vandi sig við það verk að standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar. Það vill bara svo einkennilega til í þeirri vinnu sem átti sér stað í sumar að það var unnið með mjög misjöfnum hætti. Við sjálfstæðismenn beygðum okkur undir það að það var einbeittur brotavilji hæstv. ríkisstjórnarinnar, eins og ég vil kalla það, að koma þessu máli í gegn. Okkar vinna miðaðist við það að lágmarka þann skaða sem af þessu leiddi fyrir íslenska þjóð, lögðum okkur öll fram við það ásamt öðrum þingmönnum flestum, sennilega 10 af 11 þingmönnum í fjárlaganefnd. Að því leytinu til eru þeir fyrirvarar sem settir voru í lögunum sem tóku gildi 2. september okkar og við stöndum við þá. Ég skal standa við þá hvar sem er og menn skulu hafa um það ýmis orð hvort það sé staðfesta eða einhver losarabragur, langur vegur frá.

Að óbreyttu frumvarpi, eins og það liggur fyrir, mun ég ekki staðfesta það (Gripið fram í.) svo það liggi fyrir. Ég mun standa fullkomlega, hæstv. utanríkisráðherra, í lappirnar í þessum efnum, miklu fremur og fastar en hæstv. ráðherra hefur gert í þessu máli, því miður, samanber þá yfirlýsingu sem hv. formaður fjárlaganefndar gaf áðan um það að hann dró í land með það að við komum að sjálfsögðu ekki til með að vinna með þeim hætti að draga til baka lagasetningu í alþjóðlegum samskiptum, eins og hv. þingmaður og hæstv. utanríkisráðherra gáfu í skyn hér í umræðum um daginn.

Svo það liggi alveg fyrir, svo ég svari: Ég mun standa í lappirnar í þessu máli og ég treysti á að þið gerið það líka, framsóknarmenn. (Gripið fram í: … gert það.)