138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[13:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka til máls um málefni garðyrkjunnar. Við heyrum það á hv. formanni sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar að hér er enn eitt málið sem þessi ríkisstjórn er með í frosti í nefnd. Hún virðist vera alveg sérstaklega lagin við að setja af stað nefndir sem snúa að greinum atvinnuuppbyggingar í landinu og setja þar mál í frost. Á sama tíma linnir hún ekki látum við að gefa út yfirlýsingar um orkuskatta eða aðra þætti sem snúa að atvinnuuppbyggingu sem setja atvinnulífið allt í uppnám, eins og sjávarútveg og stóriðju. Þar er talað um aukna skattheimtu, stöðva framkvæmdir og draga úr framkvæmdum sem eru í farveginum.

Árangur í garðyrkju er óumdeildur og við jöfnumst á við það besta í heiminum að því leyti, sérstaklega í tómataframleiðslu og á fleiri sviðum. Það er mikilvægt fyrir okkur að ýtt sé undir aukningu á þessum vettvangi. Við erum með vistvæna framleiðslu, við notum engin eiturefni í okkar framleiðslu þannig að hér er um að ræða mjög hagkvæma og eiturefnafría framleiðslu.

Þessi ríkisstjórn notar það síðan, og þessir stjórnarflokkar, að etja saman atvinnugreinum. Það er kunnuglegur söngur sem maður þekkir úr hvalveiðunum þegar eitt skal leysa annað af, þegar það liggur alveg fyrir að þetta getur gengið allt saman. Hvað er á móti því að það sé öflug og sterk stóriðja í þessu landi á sama tíma og við rekum öflugan landbúnað og öfluga garðyrkju?

Það þarf ekki að tala svona. Það er talað um að virkjunarkostir séu ekki fyrir hendi, að ekki sé hægt að framleiða næga orku til að sinna hvoru tveggja hjá þjóð sem nú hefur nýtt innan við 30% af efnahagslega hagkvæmum virkjunarkostum í landinu, sjálfbærum virkjunarkostum. (Gripið fram í: Ha?) Já, innan við 30% í jarðvarma og vatnsorku ef saman er talað. [Hlátur í þingsal.] Það hefur engin þjóð efni á því að nýta ekki auðlindir sínar og við þurfum að gera það (Gripið fram í: Þetta er …) hér allra helst til að efla hér atvinnulíf í landinu og þar með talið (Forseti hringir.) garðyrkjuna og landbúnaðinn.