138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

staða garðyrkjunnar -- Icesave.

[14:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að mótmæla þeim orðum hv. síðasta ræðumanns, hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, þegar hann sagði að ríkisstjórnin væri ekki að gera neitt þegar kæmi að málefnum garðyrkjubænda. Það er bara alrangt. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir að þeir eru búnir að lofa því að hækka skatta á þá. (Gripið fram í: Þá er nú betra að gera …) [Hlátur í þingsal.] Það eru skilaboðin sem þessi ríkisstjórn gefur og ég var alveg hjartanlega sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur þegar hún sagði að hér töluðu þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar alltaf eins og þeir væru í stjórnarandstöðu.

Þeir fóru hér mjög mikinn, það þyrfti bara að gera eitthvað í þessu, ekki nokkur einasta spurning. Einn, nánar tiltekið þingflokksformaður Samfylkingarinnar, sagði: Það vantar bara pólitískan vilja. Hver býr í þessu landi? Það eru ekki þessir þingmenn hér inni sem styðja þessa ríkisstjórn. (LMós: AGS.) Hv. þm. Lilja Mósesdóttir kallar: AGS. [Hlátur í þingsal.]

Virðulegi forseti. Hér er kannski eitthvað að skýrast. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í.) Við erum alltaf að eyða tíma í einhverja tóma þvælu. Ég verð að viðurkenna að ég spyr endrum og eins hæstv. ráðherra um ýmislegt. Við erum alltaf að tala við vitlaust fólk. Það er spurning hvort virðulegur forseti reddi símanúmerum hjá AGS og þingmenn geti bara spjallað við þá. Það er algjörlega ljóst og öllum var ljóst sem hér voru inni og hlustuðu á þessa umræðu að þeir stjórnarþingmenn sem hér eru stýra ekki neinu, enda komu þeir með fjárlagafrumvarp, stóðu fyrir framan okkur og sögðu: Við höfum ekki hugmynd um hvernig á að framkvæma það, ekki hugmynd, m.a. þennan 16 milljarða orkuskatt sem augljóslega mun lenda á garðyrkjunni.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé kominn tími á að við sækjum þann sem hér stjórnar og eigum orðaskipti við hann. Það er alveg vonlaust að eiga orðaskipti við þessa stjórnarþingmenn.