138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

forgangsröðun í heilbrigðisþjónustunni.

[14:31]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir þessa mjög þörfu umræðu. Ég vil segja í þessari pontu að þessa umræðu þurfum við að taka oftar, miklu oftar, vegna þess að hér erum við komin að grunngildi samfélagsins sem við köstum ekki til höndum.

Það er á margan hátt óþolandi fyrir stjórnmálamenn, sérstaklega þá yngri og þá sem nýir koma inn í pólitík, að enn skuli það vera svo árið 2009 að þau grunngildi sem varða heilsugæslu, grunnþjónustu í menntun og málefnum aldraðra og fatlaðra skuli vera skiptimynt þegar kemur að alvarlegum niðurskurði. Það er mjög alvarlegt að svo skuli vera, að okkur skuli ekki enn þá hafa tekist að búa til þverpólitíska samstöðu um það sem við ætlum að verja hvað sem á gengur. Þar er að mínu viti heilsugæslan og þjónusta spítalanna um allt land mjög mikilvæg. Við verðum að viðurkenna í þessari umræðu hverju við ætlum að verja til þessa málaflokks. Við getum ekki endalaust gengið þannig til verka að þessi viðkvæma þjónusta liggi löskuð eftir vegna þess að, eins og ég gat um, hún er viðkvæm og það er erfitt að koma henni aftur af stað. Ég get nefnt sem dæmi af því að við vorum með gesti í heilbrigðisnefnd í morgun frá sjúkrahúsinu á Akureyri að sá spítali er með um 4 milljarða á fjárlögum og fram til ársins 2013 kann svo að fara að það verði búið að skera niður fjórðung af þeirri upphæð. Viljum við það? Viljum við almennt taka svoleiðis á heilbrigðismálum okkar, þessari grunnþjónustu? Ég segi nei og ég skora á ráðherra að taka nú við þeirri þverpólitísku samstöðu sem heyrist úr pontu, ganga hraustlega til verks í verkaskiptingu spítalanna og þiggja þann breiða stuðning sem mér heyrist koma héðan.