138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[15:19]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra kærlega fyrir skýra framsögn. Ég hef áhuga á að spyrja aðeins betur út í tvö atriði. Í fyrsta lagi ákvæði sem er í 1. gr. um það að dómstólaráð ákveði hvar héraðsdómur hafi fastar starfsstöðvar og hvernig landinu er skipt í þinghár. Ég óska eftir því að ráðherrann útskýri aðeins fyrir okkur hvers vegna þessi leið er valin, vegna þess að í greinargerðinni kemur fram þessi texti, með leyfi forseta:

„Eðlilegt þykir að breyta þessu á þann veg að dómstólaráð taki ákvörðun um skiptingu landsins í þinghár.“

Frú forseti. Mig langar til að vita hvers vegna þetta er talið eðlilegt, vegna þess að ég er ekki alveg viss um að ég sé sammála því, heldur tel ég þetta vera hlutverk okkar sem sitjum í þingi vegna þess að gríðarlega miklu máli skiptir hvar þessar þinghár eru.

Jafnframt langar mig að fá að vita aðeins meira varðandi sparnaðinn sem ætlast er til að þetta frumvarp skili, hvernig hann hafi verið reiknaður út o.s.frv., enda kemur fram hér í athugasemdum frá fjármálaráðuneytinu að megintilgangur frumvarpsins sé að draga úr kostnaði við rekstur héraðsdómstóla. Ég á erfitt með að sjá hvernig sá sparnaður kemur til með að verða, vegna þess að nú þekkjum við til hvernig skipan mála er í þessum málum og vissulega þurfa þinghár að vera reknar úti um landið, mörg mál eru tekin fyrir þar. Ég get ekki alveg séð að sparnaður verði varðandi þessi atriði og sérstaklega ekki hvað varðar yfirstjórnina, þrátt fyrir að dómstjórum verði fækkað, þar sem launamunur þeirra og almennra dómara er ekki það mikill að hann komi til með að hafa gríðarlega hagræðingu í för með sér.