138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[15:21]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Já, tillögurnar ganga út á það að í stað átta stofnana verði ein stofnun og dómstólaráði verði færð aukin verkefni m.a., eins og hv. þm. bendir á, að ákveða hvernig landinu er skipt í þinghár. Í dag er þetta með reglugerð. Ég get alveg fallist á að ræða megi hvort færa eigi dómstólaráði þessi völd og hvort dómstólaráð eigi að hafa það algjörlega í hendi sér án aðkomu t.d. ráðherra. Þannig að ég held að þetta sé atriði sem má ræða og skoða betur.

Hvað varðar sparnaðinn, þá er rekstur dómstóla þannig að mjög þröngar skorður eru settar því að skera niður. Ekki eru margir rekstrarliðir þar sem hægt er að grípa niður. Það er hægt að grípa niður í launum dómstjóra. Og í staðinn fyrir að borga laun átta dómstjóra, þá verða laun eins dómstjóra greidd. Þetta eru sem sagt hæstu laun sem greidd eru við héraðsdómstólana, þannig að þar er gert ráð fyrir sparnaði.

Það er líka þannig að hægt er að nýta ýmiss konar miðlæga þjónustu hvað varðar starfsmannahald og annað sem mundi þá samnýtast í einni stofnun. Síðan er álag á dómara mjög misjafnt eftir því hvar þeir eru staðsettir á landinu, þannig að það væri þá hægt að nýta krafta dómara betur, þ.e. það væri jafnara álag á þeim.