138. löggjafarþing — 18. fundur,  3. nóv. 2009.

dómstólar.

100. mál
[16:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit að hv. þingmaður hefur ekki möguleika á að svara því aftur en segist hafa beðið um orðið þannig að kannski svarar hún því á eftir. Trúir hv. þingmaður því virkilega að þetta frumvarp, verði það að lögum — og þrátt fyrir það álit nánast allra að vinnuálag í dómstólunum muni stóraukast á næstu missirum — leiði til þess að ekki þurfi að fjölga dómurum? Ég trúi því ekki og ég held að ekki sé heldur hægt að lesa það út úr frumvarpinu. Þrátt fyrir að ýjað sé að því í greinargerð með frumvarpinu er ekkert tölulegt mat á bak við það. Það verður líka að hafa í huga að ekkert bendir til þess að frumvarpið muni draga úr kostnaði og hv. þingmaður sagði það líka í fyrra andsvari sínu, gerði lítið úr því að þetta mundi út af fyrir sig spara nokkuð enda er það alveg rétt. Þetta frumvarp mun ekki spara fimmeyring. Það mun hins vegar leiða til aukins kostnaðar, a.m.k. til að byrja með af ýmsum ástæðum, vegna biðlaunakostnaðar, vegna húsamála o.s.frv. Þetta mun þess vegna ekki spara fimmeyring. Það mun valda útgjöldum sem eru ófyrirséð og ekki er gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu og hæstv. ráðherra, sem hefur verið duglegur að halda utan um sinn ramma, mun lenda í erfiðleikum með að reyna að finna matarholur til að mæta þessum aukna kostnaði. Þetta frumvarp, sem hefur þann yfirlýsta tilgang að draga úr kostnaði, mun auka kostnað þegar upp er staðið, a.m.k. til skamms tíma, og það mun valda kostnaðarauka víða úti um byggðir landsins. Það mun auka kostnað hjá lögmönnum, það mun auka kostnað hjá þeim sem þurfa að fara fyrir dómarana og þetta er skref í ranga átt. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel og við íhaldsmenn teljum að ekki eigi að vera að breyta þeim hlutum sem reynast vel.