139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:12]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að ákveðið jafnvægi þarf að ríkja á milli lánveitanda og lántakanda. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að það jafnvægi hafi ekki verið tryggt með íslenskri gjaldþrotalöggjöf til þessa og í seinni tíð í kjölfar efnahagshrunsins hefur þetta jafnvægi raskast enn meira.

Ég vil minna á það líka að gjaldþrot er mjög alvarlegur hlutur. Það er nokkuð sem enginn leikur sér að, hvorki einstaklingur, heimili né fyrirtæki. Það leikur sér enginn að því að fara í gjaldþrot þó á öllum reglum séu til undantekningar. Að sjálfsögðu er það til. Ef menn hafa gerst brotlegir við lög á að leiða slík mál til lykta fyrir dómstólum í réttarkerfinu. Það er sjálfur grunnur réttarríkisins. En samfélagið á ekki að refsa fólki sem missir fótanna með því að halda því á hnjánum út í hið óendanlega. Það gerir ekki siðað mannréttindasamfélag og það er þess vegna sem ég tel að þessi löggjöf, sem vonandi verður að veruleika innan skamms, sé stórkostleg mannréttindabót.