139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra fyrir að leggja fram þetta frumvarp sem felur í sér gríðarlega réttarbót fyrir þá sem eiga í erfiðleikum vegna skulda sinna á Íslandi og búa í skuldafangelsi eða eiga á hættu að lenda í skuldafangelsi þrátt fyrir gjaldþrot.

Það eru ákveðnar ábendingar til allsherjarnefndar sem mér finnst mikilvægt að verði ræddar í samhengi við þetta frumvarp. Ég get tekið undir ákveðið af því sem fram kom í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar, að þetta séu ansi róttækar breytingar og langt gengið. Ég vil samt sem áður taka fram að ég held að núna sé mjög mikilvægt að stytta þennan tíma verulega og ég tel, ef mat nefndarinnar er að til lengri tíma sé þetta of stuttur frestur, að á næstu árum eða út næsta ár ætti að stytta tímann í tvö ár eins og kveðið er á um í frumvarpinu. Bæði er það þannig að fjöldi fólks hefur lent í gjaldþroti á Íslandi og situr í þeirri súpu að hægt er að hundelta það alla tíð og líf þess er komið neðan jarðar hvað varðar tekjuöflun og það hefur ekki færi á að eignast neitt til lengri tíma. Það er aðstaða sem ekki er mönnum bjóðandi í siðuðu samfélagi. Og svo er fjöldi fólks í mjög alvarlegri fjárhagsstöðu og á á hættu að lenda í gjaldþroti og þarf að tryggja að það fólk þurfi ekki að búa við núgildandi lög.

Síðan tel ég þetta frumvarp vera mjög mikilvæg skilaboð til lánastofnana um að fara í þær afskriftir sem nauðsynlegar eru til að reisa fyrirtæki við og til að koma heimilum í það horf að fólk búi ekki við stöðugar nagandi fjárhagsáhyggjur vegna tregðu lánastofnana við að afskrifa í raun tapaðar kröfur.

Frú forseti. Það sem ég vildi sagt hafa í stuttu máli er að ég styð í megindráttum þetta frumvarp. Ég hef samt ákveðnar efasemdir um að fyrningartíminn eigi til lengri tíma að vera svona skammur. Ég tel fulla ástæðu til að nefndin fari mjög ítarlega yfir það ef hún telur tímann of skamman að hún hafi hann styttri til bráðabirgða, t.d. út árið 2011 eða 2012. Ástæðan fyrir því að ég hef áhyggjur af fyrningartímanum er ekki sú að ég sé mótfallin réttindum skuldara, þvert á móti. Það kann að vera að þetta mikil stytting hafi áhrif á aðgengi fólks að lánsfé og fyrir þá sem eru tekjulægri, eða eiga ekki aðstandendur sem geta aðstoðað þá þegar þarf að fjárfesta í húsnæði eða taka lán að einhverju tagi, að þeim verði gert erfiðara fyrir að fá lán. En það er eitthvað sem allsherjarnefnd mun leggja upp í að skoða og vega og meta hvernig við tryggjum sem best með gjaldþrotalöggjöfinni hagsmuni skuldara án þess að ganga með of grófum hætti á hagsmuni kröfuhafa sem hafa í raun og veru haft algerlega sviðið í þessari löggjöf. Ég held að núna tveimur árum eftir hrun bankakerfisins sé fullkomlega tímabært að fara í alvöruvinnu því að það hefur sýnt sig að mikil tregða er til að afskrifa það sem afskrifa þarf og sá hópur Íslendinga sem býr við nagandi fjárhagsáhyggjur er orðinn allt of stór.

Því endurtek ég þakkir mínar til hæstv. ráðherra og óska allsherjarnefnd velfarnaðar í þessari vinnu sem ég vona að gangi vel og að við fáum niðurstöður sem við getum sammælst um að samþykkja og gera að lögum íslenskum heimilum og fyrirtækjum til hagsbóta.