140. löggjafarþing — 18. fundur,  8. nóv. 2011.

aðgerðir til að endurreisa íslenskt efnahagslíf.

142. mál
[15:39]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þessar tillögur er ekki hægt að slíta úr samhengi hverja við aðra. Það væri til dæmis óskynsamlegt að gera ekkert annað en að afnema lögfestingu tillagna ríkisstjórnarinnar um skattahækkanir. Það er hins vegar skynsamlegt að gera allt í senn, lækka skattana, örva fjárfestingu, leysa skuldavandann og gæta að stöðu lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þetta er heildstætt plan og það er ekki hægt að taka einstaka þætti út og segja: Þetta út af fyrir sig er óraunhæft.

Telji hv. þingmaður óraunhæft að lækka skatta eða halda þeim í horfinu eins og er í raun tillaga okkar, að halda þeim í horfinu miðað við það sem gilti hér þegar kjörtímabilið hófst, þyrfti hann að tjá sig líka um valkosti. Við buðum upp á valkost í upphafi kjörtímabilsins, nefnilega þann að skattleggja inngreiðslur séreignarsparnaðarins. Það hefði getað skilað ríkinu tugum milljarða (Forseti hringir.) í tekjur tímabundið og hlíft þannig heimilunum og atvinnulífinu við nýjum álögum á þessum viðkvæma tíma.