141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

mótun reglna um verkferla og hæfnismat við opinberar embættisveitingar.

119. mál
[15:28]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir þátttöku í umræðunni um þetta mál og get sagt að ég er sammála mjög mörgu af því sem fram kom hjá honum. Tillagan er ekki flutt vegna þess að við flutningsmenn séum að leggja dóma á einhverjar tilteknar embættisveitingar eða ósætti við þær, heldur fyrst og fremst til að reyna að búa til umgjörð um ferli mála þannig að það geti verið tiltölulega óumdeilt.

Það eru uppi ýmis álitamál í þessu eins og hv. þingmaður nefndi og sumir þættir eru ekki kannski mælanlegir á hefðbundinn hátt og þarf að meðhöndla öðruvísi. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að slíkir þættir geta og eiga að koma inn í þegar metið er hvaða einstaklinga á að ráða eða skipa til starfa. Það sem skiptir öllu máli er að þeir séu þekktir, það sé vitað hvaða þættir það eru sem koma til skoðunar þótt þeir séu ekki mældir í árum út frá menntun eða starfsreynslu.

Til dæmis það sem hv. þingmaður nefndi um samstarfshæfni og hæfileika til að taka þátt í hópvinnu, teymisvinnu eða mannlegum samskiptum. Það skiptir máli að þeir þættir séu þekktir og þeirra sé getið í auglýsingum þannig að þeir sem sækja um viti að þeir komi til skoðunar og kærunefndir, umboðsmaður eða jafnvel dómstólar sjái líka að það hafi verið tekið fram að slíkir þættir kæmu til skoðunar og það hafi ekki verið ómálefnalegt að taka þá til mats. Mér finnst skipta máli að umgjörðin sé mjög skýr og menn viti að hverju þeir gangi.

Um það atriði sem hv. þingmaður nefndi sérstaklega, hvort rétt væri að ráðherrar vikju sæti við tilteknar aðstæður vegna tengsla við ákveðna umsækjendur, er ég ekki alveg jafnsammála honum. Það snýst að mínu viti ekki eingöngu um að axla pólitíska ábyrgð heldur líka að allir þeir sem sækja um tiltekið starf hafi sannfæringu fyrir því að unnið sé að málinu á réttan og sanngjarnan hátt og ekki skapist tortryggni um að aðrir þættir hafi þrátt fyrir allt verið látnir ráða úrslitum mála. Þess vegna held ég að það geti verið nauðsynlegt fyrir ráðherra að víkja sæti. Við þekkjum það að hæfisreglur stjórnsýslulaganna geta átt við í vissum tilvikum, þær gilda óumdeilanlega ef um náinn skyldleika er að ræða, en þær gilda kannski ekki þegar um óformlegri náin tengsl er að ræða eins og margra ára vinskap sem oft getur verið miklu nánari en ættartengsl. Þá gilda hæfisreglurnar ekki um slíkt heldur ræður mat viðkomandi einstaklings.

Það sem fyrir okkur vakir er fyrst og fremst að búnar séu til einhverjar reglur og það sé sagt fyrir fram hvernig hæfnisnefndir eru skipaðar. Er það ráðherrann sem fer með viðkomandi embætti sem skipar þær? Eiga einhverjir aðilar tilnefningarrétt í slíkar nefndir? Þessa hluti þarf bara að skoða og fara yfir, skoða kannski hvernig þetta er hjá öðrum þjóðum ef einhver dæmi er hægt að sækja þangað. Ég held að margt af þessum toga sé hægt að sækja í háskólaumhverfið.

Ég tek undir með hv. þm. Illuga Gunnarssyni að að sjálfsögðu verða alltaf einhverjir þættir í mati á hæfni einstaklinga til að rækja ákveðin störf matskenndir. Þá skiptir öllu máli að þeir séu þekktir fyrir fram og menn viti að þeir komi til skoðunar.

Á hinn bóginn á þetta ekki við um ákveðin störf, einkum í stjórnsýslunni, sem við getum sagt að séu pólitísks eðlis og fylgi ráðherrum. Ráðherrann ræður aðstoðarmenn sína sem koma og fara með ráðherrum, það er auðvitað eðlilegt. Og kannski mætti setja enn skýrari ramma um slík störf og jafnvel að skilgreina að þau séu undantekning og séu tiltekið hlutfall mannaflans í hverju ráðuneyti fyrir sig, en það er önnur umræða.

Þetta vildi ég láta koma fram. Ég vonast til að málið fái málefnalega og góða umfjöllun í hv. nefnd og hægt verði að þoka því áleiðis í þokkalega góðri samstöðu.