141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

kosningar til Alþingis.

55. mál
[18:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis og snýr það að því að auka persónukjör.

Ég vil benda á að minn flokkur er sennilega fremstur allra flokka í prófkjörum. Í hvert skipti sem ég hef tekið ákvörðun um að bjóða mig fram hef ég þurft að höfða til tíu þúsund kjósenda og ná athygli þeirra og ég tel það vera mjög lýðræðislegt. Ég er mjög ánægður með að minn flokkur skuli standa svona framarlega í þessu. Aðrir flokkar hafa minna prófkjör, sumir hafa mjög lítið prófkjör, það eru bara níu manns einhvers staðar sem taka ákvörðun um að stilla upp lista, þannig að mér finnst frumvarpið til bóta.

Þeir sem hafa tekið þátt í prófkjörum vita að þar er barátta á milli einstaklinga og hún getur oft skilið eftir sig sár. Ég held að það sé ekki gott að flytja prófkjörin fram á kosningadaginn. Það væri miklu sniðugra að skoða þann möguleika að allir flokkar hefðu sameiginlegt prófkjör, segjum fjórum mánuðum fyrir kosningar, og þar berjist einstaklingarnir um athyglina innan hvers flokks og þar mætti kjósa líka, eins og hér er bent á, milli flokka ef menn hafa áhuga á einum í einum flokki og öðrum í hinum flokknum, en samanlagt eitt atkvæði. Þá mundu menn að sjálfsögðu reyna að hafa áhrif á þann flokk sem þeir ætla sér að kjósa seinna meir eða hafa mestan áhuga á að kjósa ef listinn verður þannig.

Það sem þessi hugmynd gengur út á er það að nýtt fólk á erfitt uppdráttar vegna þess að ekkert er sagt um það hvernig þessir listar eru upphaflega settir fram. Það getur bara verið gert í reykfylltum bakherbergjum einhvers staðar, að listinn er búinn til upphaflega. Svo hafa kjósendur val um það að raða innan þess hóps. En nýtt fólk, sem vill helga stjórnmálunum krafta sína, á erfitt með að komast inn með þessum hætti.

Ég legg til að fólk sem gengur í flokk og vill taka þátt í stjórnmálum, velji sér fyrst flokk og geti svo boðið sig fram, hver og einn einasti. Það er það sem við þurfum að opna fyrir að meira lýðræði sé í því hvernig fólk kemst upp í gegnum prófkjörin og getur komist inn á þing með þeim hætti. Ég ætla því að stinga upp á því við hv. nefnd sem fær þetta til skoðunar að skoða þann möguleika að haldið verði sameiginlegt prófkjör allra flokka þar sem bara persónurnar eru valdar. Síðan kæmu venjulegar þingkosningar þar sem kjósendur eru í raun búnir að velja eða raða fólki á lista. Ég held að það yrði öllu skynsamlegra.

Ég má til með það, herra forseti, í þessu samhengi að nefna umræður undanfarið um bókhald og fjármál frambjóðenda. Ég verð að segja eins og er að þetta lítur út eins og núverandi þingmenn séu að verja hagsmuni sína, passa að það komi nú ekki fleiri inn, vegna þess að það er aldeilis fráhrindandi ef fólk ætlar að bjóða sig fram og er hótað með því að það þurfi að skila bókhaldi og öllu slíku í ljósi þess hvað það kostar að búa til bókhald. Það er ekki nóg að menn þurfi að standa straum af prófkjöri og öðru slíku og öllum kostnaði við það að bjóða sig fram, svo ná menn ekki kjöri og þá þurfa þeir að borga svona 200–300 þús. kr. í viðbót til þess að koma með endurskoðað bókhald.

Ég er nú ekki hrifinn af því að ríkið sé að taka þátt í að greiða kostnað, en fyrst ríkið gerir þessar kröfur til frambjóðenda finnst mér að það eigi líka að borga það, að ríkið eigi að borga bókhaldið og jafnvel að bjóða fram þá þjónustu, Ríkisendurskoðun hafi bara deild hjá sér þar sem maður getur hent öllum reikningunum inn og þeir ganga frá bókhaldinu. Mér finnst ekki lýðræðislegt að leggja kvaðir á frambjóðendur sem vilja helga þjóð sinni krafta sína, því að það getur verið að þeir komist ekki áfram. Ég bara sting þessu að fólki og mér finnst þessi umræða undanfarið vera virkilega þess eðlis að hún styrki þá þingmenn sem standa í þessari pontu, hún styrkir þá vegna þess að hún fælir annað fólk frá. Ég skora á allt fært fólk, klárt fólk, í landinu, sem hefur dugnað og metnað og menntun og önnur skilyrði, að bjóða sig fram, að finna sér fyrst flokk, ganga í hann og bjóða svo fram til þings, því að við þurfum að hafa sem mest framboð.