141. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2012.

gagnger endurskoðun á skipulagi og forsendum hvalveiða.

83. mál
[18:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég set alltaf spurningarmerki við það þegar ríki eru kölluð vinaþjóðir. Ég held að ríki hegði sér alltaf í samræmi við hagsmuni, það hefur ekkert að gera með tilfinningar, ást, vináttu eða slíkt. Það sáum við þegar Norðmenn vildu frekar halda góðum hagsmunatengslum við Breta en Íslendinga og settu það skilyrði fyrir lánveitingum sínum að Íslendingar mundu skrifa undir Icesave. Vinaþjóðir held ég að menn ættu kannski ekki að temja sér að tala um.

Nú hafa orðið miklar breytingar á ráðuneyti sjávarútvegsmála og ég vil spyrja hv. þingmann hvort honum sé kunnugt um að það hafi orðið verulegar breytingar og mannabreytingar innan sjávarútvegsráðuneytisins og það sé í rauninni að einhverju leyti horfið, alla vega sú þekking sem áður var. Það er spurning hvaða ráðuneyti er núna yfir sjávarútvegsmálum. Er það áhersla á auðlindir, auðlindaráðuneytið? Þetta er auðlind. Er það það sem ræður ríkjum en ekki atvinnuvegurinn hvalveiðar sem hefur veitt fjölda manns vinnu á Íslandi og skapað mikil verðmæti fyrir þjóðarbúið, líka skapað áhugaverða matseld fyrir túrista o.s.frv.? Hefur eitthvað breyst í ráðuneyti sjávarútvegsmála á Íslandi?

Svo spyr ég kannski seinna hvort eitthvað hafi breyst í ráðuneyti landbúnaðarmála.