143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

afnám gjaldeyrishafta.

[10:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki miklu nær eftir svar hæstv. fjármálaráðherra. Það deilir enginn um það vonandi hér í þessum sal að mikilvægt er að haga afnámi hafta með þeim hætti að varðir séu íslenskir hagsmunir og að við búum ekki til umgjörð sem gerir Íslendinga að lénsmönnum erlendra kröfuhafa um ókomna tíð, heldur þvert á móti að endurgreiðsluumgjörðin sé með þeim hætti að við fáum risið undir henni með sómasamlegum hætti.

En þetta hefur legið ljóst fyrir, alla vega hef ég skrifað greinar um þetta í að minnsta kosti tvö ár og ég veit að hæstv. fjármálaráðherra hefur líka talað í þessa veru fyrr. Spurningin er þá þessi: Þegar slitastjórnirnar segja að þær fái ekkert samtal við neinn, hvernig á þetta ferli að eiga sér stað? Hver af hálfu stjórnvalda ætlar að tala við slitastjórnirnar eða erlenda kröfuhafa? Með hvaða hætti eiga þær væntingar að færast nær og hvernig ætlar ríkisstjórnin að stíga það fyrsta skref sem hún hlýtur að verða að stíga með einhvers konar tilboði um viðræður um það með hvaða hætti (Forseti hringir.) eigi að leysa úr þessari stöðu?