143. löggjafarþing — 18. fundur,  7. nóv. 2013.

fjarvera umhverfisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[11:10]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Það er vandlifað í þessum heimi því að mikið er kallað eftir því að fyrirsjáanleiki sé nokkur í störfum þingsins.

Forseti vill eingöngu vekja athygli á því að kveðið er á um það bókstaflega í lögum um þingsköp Alþingis að fyrir hádegi á föstudegi skuli liggja fyrir frá hálfu ríkisstjórnarinnar hvaða ráðherrar geti verið viðstaddir óundirbúinn fyrirspurnatíma.

Hins vegar höfum við gert breytingar þegar aðstæður breytast og tilkynningar geta gefið tilefni til þess. Forseti vill t.d. vekja athygli á því að þegar fyrsta tilkynning var gefin út um viðveru hæstvirtra ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatímum í þessari viku var til að mynda ekki gert ráð fyrir því að hæstv. fjármálaráðherra yrði viðstaddur. Þegar í ljós kom að hæstv. fjármálaráðherra gat verið viðstaddur slíka umræðu var þegar gerður reki að því að gera breytingar á þessu með góðum fyrirvara. Það er því verið að reyna að gera þetta í fyrsta lagi auðvitað í samræmi við þingsköp Alþingis og í öðru lagi með það fyrir augum að bregðast við ef aðstæður breytast í vikunni.