144. löggjafarþing — 18. fundur,  14. okt. 2014.

ummæli ráðherra í umræðum.

[14:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ekki að undra að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson skilji ekkert í þeim yfirlýsingum sem formaður og varaformaður Framsóknarflokksins hafa gefið hér í dag og umfjöllun um þær. Það varðar fundi Alþingis og það verkefni Alþingis að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og eftirlit. Það er hlutverk forseta Alþingis að ganga einarðlega eftir því að þingmönnum séu skapaðar þær aðstæður að þeir geti veitt það aðhald og eftirlit.

Það er orðinn óþolandi plagsiður, ekki hjá öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar heldur sérstaklega hjá formanni og varaformanni Framsóknarflokksins, að atyrða þingmenn fyrir það að veita þeim eðlilegt og sjálfsagt aðhald í þingsalnum. Það er mál að linni.

Varaformaður Framsóknarflokksins þarf að sæta því að svara hér fyrir opinberar yfirlýsingar sínar. Hann getur ekki látið eins og opinberar yfirlýsingar ráðherrans séu ekki umfjöllunarefni á Alþingi þó að það séu sannarlega ósæmandi opinberar yfirlýsingar sem hann hefur til dæmis viðhaft um fréttamenn að undanförnu (Forseti hringir.) og neitað að svara fyrir í ræðustól Alþingis. Sannarlega þykir honum (Forseti hringir.) óþægilegt að vera minntur á yfirlýsingar sínar um (Forseti hringir.) ráðherraembætti Framsóknarflokksins, en hann verður að una (Forseti hringir.) því, hann verður að svara þeim spurningum sem til hans er beint.