145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hlustum á þau rök. Það er þess vegna sem ég ítrekaði í ræðu minni, ég er nokkuð viss um að ég hafi gert það alla vega einu sinni, að við eigum að líta á þennan málaflokk í víðara samhengi en því að þetta snúist einfaldlega um frelsi eða lýðheilsu. Lýðheilsa skiptir alveg máli en hún trompar ekki allt sem varðar frelsið. Það að málið varði lýðheilsu þýðir ekki að allt tal um frelsi og sjálfsákvörðunarrétt sé sjálfkrafa algjör anarkismi þar sem engin lög og reglur gilda og allt er í steik. Það er ekki málflutningurinn sem hefur átt sér stað hér. Það skiptir máli að taka tillit til beggja sjónarmiða en samt að útkljá málið út frá einhverjum rökum. Alveg eins og það þýðir ekki að fara algjörlega út í frelsið þýðir það ekki að forsjárhyggjan og lýðheilsan séu tromprök, rétt eins og frelsið er ekki tromprök. Það þarf alltaf að vega og meta þetta út frá því sem er í boði hverju sinni og hvaða vandamál við erum í rauninni að tækla. Það sem ég er að segja er að við eigum að reyna að gera bæði, við eigum bæði að reyna að auka frelsið og berjast áfram með forvörnum og því um líku, eins og við höfum verið að gera síðastliðin 15 ár.