149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

námskeið um uppeldi barna.

[10:41]
Horfa

Una María Óskarsdóttir (M):

Herra forseti. Umræða um uppeldi barna mætti vera meiri. Uppeldishlutverkið er þó eitt erfiðasta hlutverk okkar í lífinu og ég veit að margir foreldrar hafa kallað á aukna fræðslu um góða uppeldishætti. Nýlega heyrði ég viðtal á RÚV við Baldvin Z., höfund myndarinnar Lof mér að falla, þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„Ég ætla að standa mig vel sem pabbi.“

Það verður að segjast eins og er að uppeldi og samskipti foreldra og barna, sem og samskipti barna við aðrar fyrirmyndir, svo sem íþróttaþjálfara, flokksstjóra í vinnu o.s.frv., hefur því miður ekki borið mikið á góma þegar rætt hefur verið um vaxandi vanda vímuefnaneyslu unglinga, svo ekki sé talað um fjölmiðlun, tónlistarmyndbönd og áhrif vinahópsins. Þó fjallaði tímaritið Ármann á Alþingi árið 1829 um uppeldi þess tíma. Bóndi einn lýsir uppeldi barna sinna og segir, með leyfi forseta:

„Þegar þau hafa farið að stálpast og verða ódæl þá hef ég barið þau eins og fisk svo það er ekki mér að kenna að þau eru bæði þrá og stórlynd.“

Nú er sem betur fer öldin önnur, ég ætla að vona það, og hafa rannsakendur nútímans greint uppeldisaðferðir foreldra í þrjá flokka: Leiðandi foreldrar, skipandi og refsandi foreldrar, eftirlátir og afskiptalausir foreldrar. Í rannsóknum á uppeldisháttum foreldra hefur verið greint hvaða leiðir eru taldar skipta miklu máli til að draga úr líkum á vímuefnaneyslu, depurð, hegðunarvandkvæðum og hvaða liðir geti orðið til þess að styrkja jákvæða sjálfsmynd, auka samskiptahæfni, efla trú á eigin færni og þar með efla góða líðan og geðheilsu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra. Það er einmitt þess vegna sem ein af aðgerðum lýðheilsustefnu, sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætisráðherra, hóf vinnu við með stofnun ráðherranefndar um lýðheilsu og velferðarráðuneytið birti 2016, er um uppeldi, að öllum verðandi foreldrum og foreldrum barna sex ára og yngri gefist kostur á að sækja uppeldisnámskeið við alla ung- og smábarnavernd hringinn í kringum landið. Námskeiðunum skuli komið á fyrir árslok 2018.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ætlun sé að standa við þann þátt stefnunnar sem lýtur að uppeldisnámskeiðum fyrir foreldra.