149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

meðferð á erlendu vinnuafli.

[10:50]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn og eins fyrir góðar umræður á sameiginlegum fundi velferðarnefndar og atvinnuveganefndar í gær.

Eins og komið hefur fram í málinu og kom fram í máli hjá hv. þingmanni erum við í samtali, m.a. við verkalýðshreyfinguna og við aðila vinnumarkaðar, báðum megin, um að gera breytingar í þessa veru. Í þeim tilgangi boðum við til formlegs samtals milli þessara aðila þar sem m.a. á að ráðast í samþættar aðgerðir til aukins eftirlits.

Þarna koma fleiri aðilar að; þarna kemur lögreglan að, þarna kemur atvinnuvegaráðuneytið, þarna kemur fjármálaráðuneytið og fleiri aðilar að. Hluti af þeirri vinnu er að ræða hvort ekki sé ástæða til þess að skerpa á löggjöf meira en gert hefur verið vegna þess að við samþykktum lög síðasta sumar sem sneru að starfsmannaleigum og keðjuábyrgð. Hluti af þessu er líka að ræða hvort ekki sé ástæða til þess að grípa til harðari viðurlaga við brotum sem þessum.

Hæstv. iðnaðar- og ferðamálaráðherra viðraði ákveðnar hugmyndir í Morgunblaðsgrein um síðustu helgi sem sneri m.a. að byggingarmarkaðnum. Verkalýðshreyfingin hefur ákveðnar hugmyndir og ég held að með samtali þarna á milli séum við að ræða til hvaða aðgerða eigi að grípa og með hvaða hætti. Ég finn það og fann það á umræðum bæði í velferðarnefnd og atvinnuveganefnd í gær og í þingsal og alls staðar úti í samfélaginu að það er vilji til þess að við gerum það. Þá eigum við að gera það og að því vinnur ríkisstjórnin en í góðu samstarfi við verkalýðshreyfinguna. Við þurfum að vera meðvituð um með hvaða hætti við ætlum að gera það, hvaða aðgerðir við ætlum að ráðast í. Það er þess vegna sem þessi vinna var sett af stað fyrir nokkrum vikum. Meiningin er að út úr því komi tillögur sem leitt geta til breytinga á lögum.