151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

lög um þungunarrof í Póllandi.

[10:44]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi farið öfugu megin fram úr rúminu. Þetta var einföld spurning: Lýsir hann yfir sömu áhyggjum og forsætisráðherra yfir stöðu kvenna og réttindum kvenna sem er verið að skerða í Póllandi? Það er ósköp einfalt að lýsa því yfir. Já, þetta tengist því að það er um systurflokk Sjálfstæðisflokksins að ræða (Gripið fram í.) og það er m.a. möguleiki fyrir Sjálfstæðisflokkinn að beita sér fyrir því að réttindi kvenna séu virt víða um heim. Rödd Íslands skiptir máli, ekki síst á sviði jafnréttismála. Við höfum fram til þessa haft mikið að segja og þegar við tjáum okkur um jafnréttismál er hlustað. Þá skiptir máli hvaða afstöðu formaður stærsta flokksins, verandi í ríkisstjórn, hefur til þessa máls. Þetta tengist auðvitað því að afstaða formanns Sjálfstæðisflokksins var bara með þeim hætti. Það voru engin málefnaleg rök á sínum tíma að fækka vikunum úr 22 í 20, engin. Allir læknar lögðust gegn því. Það er m.a. rétt að draga það fram, og hæstv. fjármálaráðherra þarf ekki að vera viðkvæmur fyrir sínu eigin atkvæði hér í þingsal, (Forseti hringir.) það var alveg skýrt, hann var á móti breytingunni sem var til þess að stuðla að auknum réttindum kvenna (Forseti hringir.) á Íslandi.

En spurning mín var einföld og það var erfitt fyrir ráðherra að svara þessu: (Forseti hringir.) Styður ráðherra forsætisráðherra í því að lýsa yfir áhyggjum af stöðu kvenna í Póllandi? (Forseti hringir.) Þetta er einfalt svar. Í mínum huga eigum við að styðja konur í Póllandi sem og um allan heim.

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmenn að gæta að tímamörkum.)