151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

kjör lífeyrisþega.

[10:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mér er ákveðinn vandi á höndum, ég átta mig ekki alveg á því um hvað er spurt nákvæmlega. En hér er verið að lýsa stöðu fólks sem þarf að treysta á almannatryggingakerfið og ég get tekið undir það með hv. þingmanni að ástæða er til að hafa áhyggjur af því að margt af því fólki einangrast vegna sóttvarnaráðstafana. Við þurfum að vera meðvituð um það og það er hluti af ráðstöfunum í heilbrigðis- og félagsmálum sem við þurfum að sinna.

Ég ætla að leyfa mér að halda því fram annars, að öðru leyti, um almannatryggingakerfið, að við getum verið stolt af því kerfi, að við getum verið stolt af því, Íslendingar, að hafa náð á nokkrum áratugum að byggja upp jafn öflugt velferðarnet og okkur hefur tekist að gera hér. Það er svo langt í frá að það sé sjálfsagt. Hér er landsframleiðslan með því hæsta sem gerist í heimi, ef horft er á landsframleiðslu á mann, og við höfum skilað ávinningnum af því mjög ríkulega aftur út í heilbrigðis- og velferðarmál. Þannig er öryggisnetið sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni, og segir mjög götótt, slitið og fara illa með fólk, þó að, þrátt fyrir þessi stóru orð, það sé eitt það besta og öflugasta sem í boði er í heiminum. Það er bara þannig.

Við þurfum hins vegar áfram að gera umbætur á þessum kerfum og unnið hefur verið að því á undanförnum árum. Þetta eru flókin kerfi. Bótaflokkarnir margir, réttindaflokkarnir margir, alls konar viðbætur við kerfin eins og afslættir vegna komu á heilbrigðisstofnanir og ýmissar annarrar þjónustu spila hér inn í. Þessi mál þarf að ræða af einhverri yfirvegun til að komast að niðurstöðu um það hvaða breytingar eru bestar næst.