151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

meðalhóf í sóttvarnaaðgerðum.

[11:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég lít þannig á að það sé grundvallarforsenda fyrir því að við komumst að skynsamlegri niðurstöðu að það eigi sér stað opin og gagnrýnin umræða um ákvarðanir sem stjórnvöld taka. Við megum aldrei ganga út frá því, jafnvel þótt mikið sé undir, að stjórnvöld eigi að hafa og hljóti að hafa allar heimildir til þess að grípa inn í líf fólks og rekstur fyrirtækja. Hérna erum við sérstaklega í þessu tilviki að tala um það hvort nægur lagagrundvöllur sé fyrir öllum þessum ráðstöfunum. Við höfum fengið ábendingar frá Páli Hreinssyni sem skilaði skýrslu um það og mér finnst að það liggi mjög á að þingið fái til meðferðar breytingar sem hann sagði nauðsynlegt að gera á lögum um þetta efni.

Ég hef engar áhyggjur af því að það muni grafa undan samstöðu í samfélaginu að við tökum þessa umræðu opið og heiðarlega. Ég hef engar áhyggjur af því. Ég treysti Íslendingum mjög vel til að vera virkir þátttakendur í því og fjalla um þau mál og komast að niðurstöðu (Forseti hringir.) eftir góða ígrundun. Ég er ánægður með það að fólk úr mínum þingflokki hefur verið að benda á álitamál sem skipta persónufrelsi, (Forseti hringir.) atvinnufrelsi og aðra slíka grundvallarþætti mjög miklu máli. Ég vek aftur athygli á því að þrátt fyrir alla þessa umræðu höfum við (Forseti hringir.) vakið athygli einmitt fyrir árangur.