151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[12:43]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú biðja hv. þingmann afsökunar á því ef mínu skarpa augnaráði var beint til hans og í hans átt þegar ég var að tala um nýnasista. Að sjálfsögðu var ég alls ekki að beina þeim orðum mínum að hv. þingmanni. Ég held að hann viti ósköp vel að ég hef ekki verið að því, alls ekki. Ég biðst bara afsökunar ef hann hefur tekið þessi orð mín eitthvað til sín. Uppgangur nýnasisma í Evrópu liggur þungt á mér og við höfum því miður verið að sjá þá ægilegu þróun undanfarin ár.

Varðandi fjöldann: Þetta er þingsályktunartillaga um að fela heilbrigðisráðherra síðan útfærsluna, að tryggja aðgang erlendra borgara sem hingað ferðast í því skyni að þessari þjónustu. Löggjafarvaldið fer ekki með útfærslu á framkvæmdinni. Einn tilgangur þessarar þingsályktunartillögu er einmitt að fela heilbrigðisráðherra að tryggja þeim þjónustuna. Það er í raun og veru lykilorð í því hvernig útfærslan verður.

Herra forseti. Ég held að ég og meðflutningsmenn á þessari þingsályktunartillögu deilum alls ekki ótta þingmannsins um að hér flæði yfir mörg þúsund konur og stúlkur til að undirgangast þungunarrof. Ég hef satt að segja engar áhyggjur af því að heilbrigðiskerfið á Íslandi geti ekki ráðið við það. Ég held að það verði ekki raunin vegna þess að það hefur komið í ljós að þingmenn annarra ríkja hafa líka lýst yfir vilja sínum til þess að þeirra ríki bjóði fram sína aðstoð.