151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[13:43]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta andsvar. Ég er náttúrlega ekki sérfræðingur í evrópska sjúkratryggingakortinu frekar en nokkru öðru. Ég er yfirleitt enginn sérfræðingur í neinu. Ég held að það sé alveg ljóst að þeir útlendingar sem hér dvelja, sem eiga heima hér, eigi allan rétt á þeirri heilbrigðisþjónustu sem er í boði, ég tel ekki nokkurn einasta vafa leika á því. Ég hef aldrei mótmælt því, enda hef ég fagnað mjög veru þeirra hér og þátttöku þeirra í atvinnulífinu sem er okkur algerlega ómetanleg.

Varðandi þetta sjúkratryggingakort þá er minn skilningur á því, ég verð að segja það, ég ætla að vera aðeins nákvæmari en ég var þarna áðan: Minn skilningur á því er að það eigi nú frekar við þegar um er að ræða ferðamenn og svona einstaka tilfelli. En ef hér á að fara að stunda heilbrigðisþjónustu milli landa í þessum sérstaka tilgangi, og hver svo sem hann væri, þá er ég ekki alveg viss um að evrópska sjúkratryggingakortið sé til þess ætlað, t.d. ef Íslendingar færu bara allir í einhverjar tilteknar aðgerðir til Þýskalands og þarlend yfirvöld eða heimalandið greiddi það bara óhikað. Það er t.d. ekki gert varðandi liðskiptaaðgerðir sem Íslendingar þurfa að fara í til útlanda, sem við hefðum viljað að yrðu færðar inn í landið. Þannig að ég held að kannski séum við hv. spyrjandi bara sammála um að þetta kort eigi nú kannski ekki alveg við um þá hugsun sem er á bak við þessa þingsályktunartillögu.