151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[13:45]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að sjúkratryggingakortið á ekki við um ferðir sem fólk fer í gagngert til að sækja sér ákveðna heilbrigðisþjónustu. Þess vegna er þessi tillaga einmitt, hún segir að þegar kemur að tiltekinni tegund þjónustu, aðgangi að þungunarrofi, þá eigi að móta kerfið þannig að sú þjónusta falli undir sjúkratryggingakortið. Þá er allt hjal um einhvern kostnað íslenska heilbrigðiskerfisins fokið út í veður og vind vegna þess að við erum með kerfi sem greiðir þetta. Það heitir evrópskra sjúkratryggingakortið. Og þingmaðurinn þarf ekkert að vera sérfræðingur í því eða ekki, vegna þess að þetta er bara það sem hann heldur fram. Hann þarf ekki að vera sérfræðingur, hann þarf bara að segja rétt og satt frá.

Síðan varðandi það hversu mikið álag þetta verði í vinnu á heilbrigðiskerfið þá finnst mér hv. þingmaður, eins og reyndar mjög margir sem hafa tjáð sig í þessu máli, tala eins og þetta séu flóknustu læknisaðgerðir í heimi. Eins og þetta sé opin hjartaskurðaðgerð með 20 sérfræðingum og alls konar tækjum sem pípa og það sé bara milljarðaspursmál að fækka þessum aðgerðum. Áttar þingmaðurinn sig á því, sem kom reyndar fram þegar við fjölluðum um þetta mál í velferðarnefnd á sínum tíma, að 80% þungunarrofs, fjórar af hverjum fimm konum sem velja að binda endi á þungun hér á landi, gera það með lyfjagjöf? Það er öll aðgerðin, það er bara að fara upp á Landspítala, fá lyfseðil upp á lyf og fara með það heim til sín. Langfæstar konur lenda í því að þurfa að tæma leg eða eitthvað þaðan af meira inngrip sem kallar á sérfræðiþjónustu spítalans.

Ég ætla að biðja þingmanninn næst þegar hann talar um 1.000 aðgerðir á ári á Landspítalanum, að muna að 800 þeirra áttu sér stað heima hjá konunum. (RBB: Heyr, heyr.)