151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[13:54]
Horfa

Flm. (Rósa Björk Brynjólfsdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson þreytist ekki á að hneykslast hér eða að ávíta þá sem hér stendur fyrir að leyfa sér að leggja fram þingsályktunartillögu sem snýr að samstöðu með pólskum konum og stúlkum og auðvelda þeim aðgengi að þeirri þjónustu sem lýtur að þungunarrofi hér á landi á tímum þegar við göngum í gegnum efnahagsþrengingar. Samt sem áður er hann sá þingmaður sem tjáir sig mest um þetta mál. Ég held að hv. þingmanni væri kannski hollara að líta sér nær og fara að koma fram með alvörutillögur til að sporna gegn því að 200 manns standi í röð eftir matargjöfum í hans eigin kjördæmi. Ég hef ekki séð eina einustu tillögu frá þessum hv. þingmanni um það.

Síðan velti ég aðeins fyrir mér tölum. Hv. þingmaður talar hér um tugþúsundir útlendinga sem muni flæða inn í landið. Hvaðan í ósköpunum hefur hv. þingmaður þá tölu? Nú þekki ég hana ekki, og er ég þó 1. flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu, vegna þess að það er erfitt að áætla, eins og ég sagði í flutningsræðu minni og andsvörum, hversu margar konur og stúlkur muni nýta sér þá þjónustu sem við erum að bjóða upp á samkvæmt þessari þingsályktunartillögu. Þannig að mig langar til að vita hvaðan hv. þingmaður fær þær tölur sem hann er hér með bábiljur um í einhvers konar hundaflautupólitík til að þyrla upp málum og andúð gagnvart kvenréttindum og útlendingum í sömu andrá.