151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:03]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi pólaríseringu: Ég held að sú mynd sem hv. þingmaður dregur hér upp sé akkúrat það sem er að gerast í Póllandi. Ég hef ekki sérstakar áhyggjur af pólaríseringu þar, þar hafa einmitt öfgakennd öfl komist til valda með sínar öfgakenndu skoðanir og þá er mjög eðlilegt að togað sé til baka. Ég var frekar að tala almennt um stjórnmál heilt yfir og var kannski að lýsa svolítið umræðunni hér inni í þingsal af því að hér verður svolítið mikil harka og svolítið mikil pólarísering í umræðunni okkar, annaðhvort er fólk með eða ógeðslega mikið á móti. En það er alveg ofboðslega stórt svið þar á milli. Hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson sagði hér áðan að hann væri ekki á móti þungunarrofi að uppgefnum ákveðnum aðstæðum, ef ég skildi það rétt. Það er auðvitað allt annað en stjórnvöld í Póllandi tala fyrir. Þau hafa afnumið öll réttindi með öllu, alveg sama hvað komi upp á hjá viðkomandi konu. Það sem ég var að benda á er að rófið er svo stórt og mikið.

Hv. þingmaður kom inn á hið ágæta internet. Ef við förum enn lengra í internetinu og samfélagsmiðlum þá er það einhvern veginn þannig að það ýtir svolítið undir það að annaðhvort er fólk með eða á móti og það þarf að útskýra afstöðu í einni línu eða einni stuttri færslu. Ég tel það svolítið vandamál í stjórnmálaumræðunni, stjórnmálahefðinni og orðræðunni heilt yfir. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega Bandaríkin og ég held t.d. að það sé mjög mikið vandamál þegar kemur að Bandaríkjunum þar sem aðilar hafa komist áfram með því að tala fyrir einhvers konar einföldum lausnum á mjög flóknum viðfangsefnum, einhverju sem hægt er að kasta fram í einhverri einni færslu á Twitter og halda því bara fram nógu oft og halda þá að allir hinir fari að trúa því líka en sem betur fer trúðu Bandaríkjamenn ekki á það og ég óska þeim til hamingju með nýkjörinn forseta.