151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:05]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Við göngum í gegnum fordæmalausa tíma. Í þetta skipti er ég ekki að tala um kórónuveirufaraldurinn heldur þá staðreynd að á síðustu árum hefur markvisst verið unnið gegn áunnum réttindum fólks víða um heim. Fram til þessa dags hafði framþróunin verið í eina átt en komið er gríðarlegt bakslag gegn kvenréttindum um allan heim, svo mikið bakslag að aðalritari Sameinuðu þjóðanna notar hvert einasta tækifæri sem hann hefur til að hvetja ríki heims til að berjast gegn því bakslagi.

Með þessari tillögu, sem ég er meðflutningsmaður að ásamt hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur og 16 öðrum þingmönnum, er brugðist við því bakslagi og sagt: Nei, við erum ekki til í þetta. Konur eiga rétt á að ráða yfir líkama sínum sjálfar. Við staðfestum það þegar við afgreiddum hér ný og framsækin lög um þungunarrof veturinn 2018–2019, þar sem Ísland, þvert á meginstrauminn í heiminum, steig skref fram á við, steig skref til góðs í þágu kvenréttinda, á sama tíma og Pólland steig sífellt aftur á bak.

Það að pólsk fóstureyðingarlöggjöf sé orðin jafn þröng og raun ber vitni gerðist ekki á einni nóttu heldur er hluti af þróun sem hefur átt sér stað lengi. Hún hefur ekki átt sér stað í tómarúmi heldur er hún hluti af skipulögðu alþjóðastarfi vel efnaðra íhaldsafla sem hafa valið Pólland sem kannski einhvers konar rannsóknarstofu, tilraunastofu, til að prufukeyra hversu langt sé hægt að ná í afturhaldssamri löggjöf þegar kemur að þungunarrofi. Innan Evrópusambandsins starfa á að giska 20–30 lobbíistar, 20–30 stofnanir sem verja hálfum til heilum milljarði íslenskra króna bara í að hafa áhrif á löggjöf í Brussel, bara í að hafa áhrif á Evrópulöggjöf. Þeir aðilar eru með útibú víða í Evrópu og bera ábyrgð, öðrum fremur, á því hvernig málum er háttað í Póllandi í dag.

Sú leið sem lagt er til að hægt sé að fara í tillögu okkar þingmannanna er auðvitað ekki sú leið sem við vildum helst fara. Eðlilegast væri að konur gætu sótt sér heilbrigðisþjónustu heima fyrir. Við þekkjum vel rannsökuð dæmi frá þeim tíma þegar írskar konur þurftu að leita út fyrir landsteinana til að sækja sér þessa þjónustu, fyrir ekki nema tveimur árum. Þá voru það þær efnameiri sem gátu sótt sér hana. Rétt áður en Írar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að leyfa þungunarrof aftur fóru um tólf írskar konur yfir til Bretlands á hverjum degi til að sækja sér þá þjónustu. Í þeim hópi voru ekki fátæku konurnar, ekki innflytjendur, ekki konurnar með veikustu félagslegu stöðuna, sem þó eru mögulega þær konur sem helst þurfa á þessari þjónustu að halda.

Bakslagið sem birtist m.a. í hertri löggjöf gegn þungunarrofi birtist líka í andstöðu við kynfræðslu eða fræðslu um getnaðarvarnir, sem var ástæðan fyrir því að ríkisstjórn Donalds Trumps dró Bandaríkin út úr samstarfi við mannfjöldastofnun Sameinuðu þjóðanna. Það er sennilega engin þróunaraðstoð sem gefur jafn mikið af sér og að fræða stúlkur og konur um kynlíf og barneignir og veita þeim þá þjónustu sem þarf til að þær geti upplifað fullt frjósemisfrelsi. Þetta vildi Donald Trump ekki en hann er ekki einn í því. Hann hefur pólsk stjórnvöld með sér og eins og við lærðum þegar við vorum að fjalla um lög um þungunarrof í þessum sal á hann sér skoðanabræður hér á landi. Með þessu er ég ekki að pólarísera umræðuna, eins og sumir þingmenn vilja vera láta, heldur benda á einfalda staðreynd. Þessi skipulögðu kvenfjandsamlegu afturhaldsöfl eiga sér málsvara hér í þessum sal. Það er staðreynd sem við þurfum að átta okkur á til þess að geta betur staðið vörð um þau réttindi sem okkur þykja svo sjálfsögð.

Hér hefur verið talað um það hversu margar konur gætu mögulega nýtt sér þessa þjónustu og hvort við stæðum frammi fyrir því að þær konur sem kæmu til Íslands frá Póllandi eða Möltu myndu gera það síðar á meðgöngunni en meðalkonan sem er búsett á Íslandi. Það er náttúrlega engin leið að spá fyrir um það en hins vegar sýnir ekki bara reynslan okkur það heldur sýna tölurnar það að konur sem ætla að rjúfa þungun gera það eins fljótt og þær geta. Hér á landi fara 80% kvenna í þungunarrof þegar minna en níu vikur eru liðnar af meðgöngu og þær sem gera það eftir 9–12 vikur eru 15% í viðbót. Þetta eru eiginlega allar konur sem fara í þungunarrof. Þær gera það eins fljótt og þær geta. Ég myndi halda að ef konu sem býr í Póllandi grunaði að hún væri ólétt, myndi hún drífa sig eins mikið og hún gæti, vitandi hve þröng staðan er í heimalandinu.

Hér hefur verið fjölyrt um mögulegan kostnað íslenska ríkisins af þessu og þar með horft ansi hressilega fram hjá því sem stendur svart á hvítu í tillögunni, að kostnaðurinn verði greiddur í gegnum evrópska sjúkratryggingakerfið. En samkvæmt því kerfi þarf auðvitað konan sem um ræðir að leggja út fyrir aðgerðinni samkvæmt verðskrá sjúkratrygginga. Hér hefur verið rætt um umfang sem yrði að sumra mati sligandi fyrir íslenskt heilbrigðiskerfi. Það er eitthvað sem velferðarnefnd skoðar væntanlega vel og rækilega. En þá má aftur benda á þá staðreynd að á Íslandi er hlutfall þungunarrofs með lyfjum 80%. Þær aðgerðir sliga kerfið ekki meira en svo að kona fer til læknis og fær ávísað lyfi sem hún tekur. Í algjörum undantekningartilvikum þarf eitthvert frekara læknisfræðilegt inngrip sem gæti mögulega haft áhrif á starfsemi spítalans.

Staðreyndin er að þetta mál er hluti af svo miklu stærri mynd en bara Íslandi eða bara Póllandi. Þetta snýst um það að við búum í heimi þar sem kona lætur lífið áttundu hverja mínútu vegna óöruggs þungunarrofs, vegna þess að hún býr við þær aðstæður að geta ekki sótt sér löglega heilbrigðisþjónustu í heimabyggð heldur þarf að leita til einhverra sem vita ekki hvað þeir eru að gera, eru kannski að framkvæma aðgerðir við óheilbrigðar aðstæður og konum eru kannski seld lyf sem eiga að vera til þungunarrofs en innihalda einhverja ólyfjan. Áttundu hverja mínútu deyr ein þeirra. Með því að samþykkja þessa tillögu væri íslenska þingið að segja: Nei, við viljum að þessar konur lifi.