151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil spyrja hv. þm. Andrés Inga Jónsson um þau orð í ræðu hans sem féllu í dag að þetta væri mjög einfalt mál, 80% fengju lyf á Íslandi. Telur hann þá, ef fjöldi kvenna kæmi frá Póllandi, að hægt væri í því tilfelli að nota svipaða tölu, 80% lyf og senda þær heim? Ef ekki, hvert ætti þá að senda þær?

Hitt er það sem ég heyrði áðan, að það væru kvenfjandsamleg öfl, ef maður væri ekki alveg til í að samþykkja liggur við óheftar fóstureyðingar. Ég verð að segja eins og er að það er bara gjörsamlega óskiljanlegt fyrirbrigði. Við tölum um heilbrigðisþjónustu, þá erum við að tala um eitthvað heilbrigt, og við tölum um óléttar konur, sem nýta jú heilbrigðisþjónustu til að fylgjast með fóstri, að allt sé heilbrigt og allt sé í lagi. Ég veit ekki hvernig á að skilgreina það þegar kona fer til heilbrigðisþjónustunnar með barn sem komið er yfir 12 vikur, kominn hjartsláttur og allt saman, að það flokkist undir heilbrigðisþjónustu í sjálfu sér að hún vilji fara í fóstureyðingu vegna þess að það er allt heilbrigt þarna nema auðvitað ástæða þess að konan er að fara í fóstureyðingu.