151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér reiknast til að ég hafi fengið tvær spurningar frá hv. þingmanni. Sú fyrri sneri að því hvert pólsk kona myndi fara ef hún fengi lyf á spítala til að rjúfa þungun. Ég veit það ekki. Ég veit að hótelherbergi er eitthvað sem kona í þessari stöðu gæti nýtt sér, hún þekkir kannski eitthvert fólk í borginni, getur farið heim til þess eins og fólk utan af landi gerir t.d. gjarnan þegar það sækir sér þjónustu í höfuðborginni. Ég held að pólskar konur, eins og allar konur, eins og flest fólk, séu nógu úrræðagóðar til að finna út úr því hvar þær setja sig niður þegar þær fá þessi lyf sem rjúfa þungun.

Það var ekki spurning hjá hv. þingmanni varðandi kvenfjandsamlegu öflin sem ég nefndi. Það er einfaldlega þannig að þau vinna um allan heim mjög virkt gegn aðgengi kvenna að heilbrigðisþjónustu sem tengist frjósemi. Það er kannski grófast hvernig þau eru að störfum í Afríku þar sem þau hafa bein áhrif á dauða kvenna. Þau verða þess valdandi að konur geta ekki sótt sér nauðsynlega læknisþjónustu á meðgöngu eða í kringum meðgöngu eða til að rjúfa þungun.

Hvort þetta er heilbrigðisþjónusta eða ekki þá held ég að við ættum ekki að rífast um það vegna þess að það er bara ákveðið með lögum. Þetta er það, samkvæmt lögum. Við lögðum það fram hér fyrir einu og hálfu ári í þessum sal og meiri hluti þings var sammála um að þetta væri heilbrigðisþjónusta, enda hefur það oft verið þannig í gegnum tíðina að ólétta hefur verið ein algengasta dánarorsök kvenna hér á landi eins og er enn í dag víða um heim.