151. löggjafarþing — 18. fundur,  12. nóv. 2020.

aðgengi einstaklinga sem ferðast til Íslands að þungunarrofi.

239. mál
[15:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað því hvernig konum líður almennt í þessu, það þurfa konurnar sjálfar að segja mér. Þá hlusta ég eða reyni að hlusta og reyna að skilja eins vel og ég get út frá því innsæi sem ég þó hef og þeirri dómgreind sem ég bý yfir, hversu mikil sem hún kann að vera. Grundvöllurinn í þessu er, og mér finnst ég vera að endurtaka sama punktinn sem hefur margsinnis verið lagður fram: Það er hægt að tala alveg endalaust efnislega um þungunarrof. Það er alveg fullt af hlutum að ræða þar. Ég dreg ekkert úr því og er alveg sammála hv. þingmanni um það. En spurningin sem liggur eftir á Alþingi er: Hver á að ráða? Hver á að ákveða þetta? Hver á að taka þessi rök og þessar staðreyndir og mælingar og kannanir og smíða úr þeim ákvarðanir? Það er að sjálfsögðu einstaklingurinn sem um ræðir. Það er grundvallaratriðið hérna. Það kemur í sjálfu sér ekki konum, körlum eða kyni við nema í þeim skilningi að það eru konur sem bera börnin.

Að öðru leyti þá finnst mér þessi punktur svo einfaldur og hann á við um allt. Við sem einstaklingar eigum okkar eigin líkama. Það ætti að duga í mínum heimi til að útkljá umræðuna. Allar spurningar sem ég og hv. þingmaður gætum haft og vangaveltur um það hvernig það sé að vera í einhverri stöðu sem við höfum aldrei verið í og munum aldrei verða, mjög ólíklega alla vega, geri ég ráð fyrir — ég vísa þeim spurningum bara til þeirra sem vita hvað þeir eru að tala um. Það eru konurnar sjálfar. Hver á að taka ákvörðunina? Látum fólkið sem verður fyrir ákvörðuninni taka hana. Og þegar kemur að þungunarrofi, innan þeirra skynsamlegu marka sem við höfum sett í lögum, eru það konurnar sjálfar. Fyrir mér er þetta ekkert flóknara en það. Og satt best að segja skil ég ekki hvers vegna það er miklu meira að ræða þegar kemur að þeirri lagalegu spurning í sjálfri sér. Þegar við erum komin á þann punkt í frjálslyndum lýðræðisríkjum að einstaklingar eiga sjálfa sig að þessu marki þá eigum við að berjast fyrir því frelsi með þingsályktunartillögum eins og þessari.